Síðasta vikan í afslöppun....

Ætla að reyna að njóta þessarar viku í botn, þar sem ég fer að vinna á mánudaginn.  Annars er kannski ekki alveg hægt að segja að það hafi verið tóm afslöppun hér í sumar.  Flytja, koma sér fyrir, fara í ferðalög, Ragnar ekki á leikskóla og stóru börnin ekki búin að kynnast neinum krökkum.  Ég er búin að vera í fullu starfi sem ,,skemmtikraftur" barnanna minna undanfarið og það er bara hörkujobb Smile

Nú ætla ég að fara að grafa eftir skóladótinu mínu í geymslunni, get ekki beðið eftir fyrsta vinnudeginum.  Enda ástæðan fyrir því að ég er kennari sú að nú geta alltaf verið í skóla, jibíííí.

Kveðja

Guðbjörg O.


Ættartengsl....

Í gær fór ég á stutt ættarmót í Árnesi.  Þar komu saman afkomendur Ingigerðar Runólfsdóttur og Þorsteins Þorsteinssonar frá Berustöðum, sem voru langa,lang amma mín og afi. 

Það er alltaf gaman að hitta ættingja sína, suma þekkir maður vel, aðra kannast maður við og enn aðra hefur maður aldrei séð.  Karlotta komst að því að drengur sem hefur verið með henni í bekk í 4 ár í Vallaskóla á Selfossi er skyldur henni, þetta þótti okkur mjög merkilegt.  Sigurrós systir mín komst líka að því að bekkjarsystir hennar úr MR er skyld henni.  Þetta er það sem er svo skemmtilegt við svona ættarmót.  Við vorum líka ótrúlega heppin með veður því sólin skein og börnin gátu því leikið sér úti, enda ekki mjög áhugasöm um ræður og langar tölur um ættartengsl.

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Norðurlandið....

Við tókum ákvörðum um það á fimmtudagskvöld að skella okkur á Sauðárkrók með fjölskylduna um verslunarmannahelgina.  Ég pakkaði í bílinn á föstudaginn og svo fórum við krakkarnir að sækja Magnús í vinnuna kl. 16 og lögðum þá beint af stað.  Það var nú ekki mikil umferð á leiðinni, ekki eins og maður hefði haldið að væri um verslunarmannahelgi.  Ferðin gekk vel fyrir sig og við vorum komin á Krókinn rúml. 8.  Bróðir hans Magnúsar, Birkir Már, býr á Sauðárkróki í stóru einbýlishúsi svo við fengum bara herbergi fyrir okkur.  Tengdaforeldrar mínir komu líka þangað á föstudaginn ásamt systurdóttir Magnúsar, henni Heiðbjörtu.  Á laugardag kom síðan systir hans Magnúsar eldri dóttir hennar Íris og hann Jóel litli 3 mánaða snúður.  Veðrið lék nú ekkert við okkur um helgina en þó var ýmislegt gert sér til dundurs.  Á laugardaginn skruppum við aðeins í Skagfirðingabúð og fórum síðan eftir hádegi á smá rúnt , framhjá Hólum og Hofsósi og fengum okkur síðan kaffi og eplaköku í Lónkoti.  Tengdapabbi grillaði síðan læri í kvöldmatinn og allir borðuðu á sig gat, enda bragðið algerlega himneskt.  Þau hjónin höfðu kryddað það með rósmarín, hvítlauk ofl. og ég hef sjaldan eða aldrei borðað jafn gott lambakjöt. 

Á sunnudaginn skruppum við að Grettislaug til að fara í bað.  Börnin fengu fræðslu um Gretti og afrek hans, áður en haldið var af stað.  Hanna Gunna, Íris og Jóel litli fóru reyndar heim til Akureyrar, því sá litli var orðinn ergilegur.  Veðrið var ekki sem best, ansi mikið rok og ekki mjög hlýtt svo við Ragnar Fannberg dunduðum okkur við að horfa á stóra gröfu sem var við vinnu hjá lauginni meðan hinir skelltu sér í bað.  Krakkarnir skemmtu sér ótrúlega vel og var það mikil upplifun fyrir þau að fara í svona náttúrulega laug.  Þeim þótti heldur ógeðslegt að baða sig innanum slím og annan ófögnuð, til að byrja með, en það gleymdist fljótt.  Það kom sér vel að það eru tvær sturtu heima hjá Birki, því öll hersingin varð að þvo sér rækilega þegar heim var komið og hlýja sér svolítið í leiðinni.  Um kvöldið borðuðum við gómsætan grillaðan lax.  Karlarnir og Oddur fóru í pool og pílukast í bílskúrnum eftir matinn, en konur og stelpur horfðu á bíómynd í sjónvarpinu.

Fjölskyldan lagði svo af stað heim um 11 leytið í gær, til að lenda ekki í mestu umferðinni og var komin í höfuðborgina um 14:30.  Þá fórum við beint í pönsur og nýbakað brauð hjá Mömmu og Hauki í Fensölunum.   Næstu dagar fara líklega í að þvo þvotta, því af nógu er að taka þar sem Oddur og Karlotta komu með flugi frá Egilsstöðum á fimmtudaginn s.l. eftir rúmlega viku fyrir austan.

Morgninum var eytt ásamt Sigurrós og Rögnu Björk í sólbaði og busli í Salalauginni og í dag er stefnan tekin á Fjölskyldu og Húsdýragarðinn, ef sólin lætur sjá sig aftur undan skýjunum.

Kveðjur til ykkar allra

Guðbjörg


Of gott til að vera satt

Ja nú er það heitt!     Það er ekki hægt að segja annað en að góða veðrið hafi komið með stæl, þegar það kom.  Ég ákvað í morgun að best væri að eyða deginum úti í svona góðu veðri.  Við Ragnar fórum með Sigurrós, Rögnu Björk, mömmu og Hauki á Árbæjarsafn að spóka okkur.  Þar var múgur og margmenni, enda frítt inn í dag vegna veðurs.  Við vorum reyndar líka glöð að komast heim og kæla okkur aðeins niður, það er stundum erfitt að vera lengi úti í miklum hita.  Það er greinilega erfitt að gera manni til hæfisSmile

 Vona að þið njótið veðurblíðunnar

kv

Guðbjörg o.


Þingvellir/Selfoss, here we come...

Eftir rokið í gær er skollið á logn og hiti.  Ég skellti mér í ræktina í morgun meðan Magnús og Ragnar busluðu í sundlauginni.  Skellti mér svo aðeins í pottinn á eftir og smá sólbað í leiðinni.  Bara yndislegt....... 

Nú er ætlunin að skella sér á örlítinn rúnt austur yfir fjall, með viðkomu á Þingvöllum.  Þar er meiningin að kaupa ís og spóka sig aðeins, halda svo á Selfoss og kíkja kannski í heimsóknir.  Bjarki er búinn að vera hjá okkur um helgina svo við keyrum hann líka heim í leiðinni.  Set kannski inn nokkrar myndir þegar heim kemur, verð nú að fara að taka mig á í þeim efnum (er bara svo mikill klaufi að mér tekst alltaf að klúðra þeim einhvervegin).  Eigið góðan dag í dag gott fólk

kveðja til allra

Guðbjörg


Er hægt að drepast úr leti?????

Það er ótrúlegt hvað maður getur verið andlaus stundum.  Var í ótrúlegu stuði um daginn þegar sólin og góða veðrið var ríkjandi, en nú nenni ég varla neinu.  Merkilegt hvað veðurfar hefur áhrif á orkustöðvarnar.  Stóru börnin voru að koma heim frá Egilsstöðum um helgina og Bjarki var hjá okkur svo það var mikið stuð og fjör.  Við stórfjölskyldan fórum í afmæli til Sigurrósar á laugardaginn og fengum dýrindis veitingar.  Síðan hefur húsmóðirin verið að springa úr leti.

Þarf eiginlega að skella mér í að flísaleggja smá í eldhúsinu, en er einhvernvegin ekki að koma mér í það.  Kannski er ég bara komin með ógeð á flísalögnumSmile 

Annars eru Oddur og Karlotta að fara aftur austur á föstudaginn, til að fara á tónleika á Borgarfirði Eystri.  Þetta eru árlegir tónleikar sem fengið hafa nafnið ,,Bræðslan".  Núna í ár mun Magni frændi þeirra syngja nokkur lög auk þess sem ég held að Emilía Torrini mæti og margir fleiri tónlistarmenn.  Þetta er frábært framtak hjá Þeim Vidda og Heiðari að brydda upp á þessum tónleikum og festa þá í sessi.  Krakkarnir ætla að koma heim fyrir verslunarmannahelgi því stefnum við að því að fara í Sælukot á útihátíð fjölskyldunnar og aldrei að vita nema við verðum skemmtileg við börnin og nennum að gista í tjaldi (a.m.k. svo eina nótt) en það fer eftir veðri.

Ég byrja svo að vinna 18 ágúst á nýjum vinnustað og er bara orðin ansi spennt.  Er að vona að Ragnar geti verið búinn í aðlögun á leikskóla fyrir þann tíma.  Hann er greinilega orðinn leiður á að vera einn heima með mömmu sinni í sumar því hann er farinn að syngja í tíma og ótíma ,,Í leikskóla er gaman, þar leika allir saman"  Ég skil alveg sneiðinaWhistling

Kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Hún systa mín litla......

er ekki lengur lítil, heldur 29 ára gömul í dag.  Til hamingju með daginn Sigurrós mín !

Þegar ég vissi að ég ætti að eignast systkini vildi ég (7 ára gömul og einbirni) endilega eignast stóran bróðir, því vinkona mín átti einn slíkan sem oft kom sér vel.  Í staðin fékk ég þessa líka yndislegu, hugmynda- og hæfileikaríku litlu systir, sem mér þykir óskaplega vænt um.  Ég held að mér sé óhætt að segja að við systur höfum alltaf átt gott samband og í dag erum við duglegar að hittast og bralla eitthvað saman. 

Guðbjörg


MAMMA MÍA

Ég fór að sjá Mamma Mia í bíó gær með mömmu og Sigurrós.  Það var í einu orði sagt frábært.  Stemningin í bíó var frábær, sennilega svona 90% konur og þær voru allar að ,,fíla myndina í botn"  í lok myndar var klappað og stappað.

Þessi mynd byggir á ABBA lögunum og það voru mörg augnablik sem mann langaði að standa upp og bresta í söng og dans, þar sem maður sat í salnum.  Leikararnir eru bara flottir, en ég verð að viðurkenna að Pierce Brosnan missti pínulítið ,,coolið" þegar hann fór að syngja.  Ekki viss um að ég geti alveg séð hann í réttu ljósi sem töffara eftir að hafa verið svona ,,mjúkur" maður.

Ég er ákveðin í að kaupa mér diskinn með lögunum úr myndinni og syngja bara hástöfum heima (nágrönnum mínum til ómældrar ánægju)!  Mæli með að allar konur sjái þessa mynd, hún er líka frábær fyrir vinkvennahópa að fara saman.

 ABBA kveðjur til ykkar

Guðbjörg


Leikskólamál

Eins og þið vitið fluttum við fjölskyldan í Kópavoginn þann 1.júní.  Um leið og við höfðum gert kauptilboð sótti ég um leikskólapláss fyrir Ragnar Fannberg hjá Kópavogsbæ, frá og með 1. ágúst n.k.  Þegar við vorum flutt, hringdi ég í leikskólafulltrúa til að kanna stöðuna og hún sagði að hann kæmist pottþétt inn á leikskóla, ég myndi fá bréf um málið fljótlega.  Það stóð heima og bréfið um að Ragnar kæmist inn á leikskóla kom´nokkrum dögum síðar.  Í bréfinu stóð að Ragnar hefði fengið pláss og að ég ætti að staðfesta það við leikskólastjóra viðkomandi leikskóla.  Ég var himinlifandi og hafði strax samband.  Leikskólastjórinn var hins vegar mjög loðinn í tilsvörum og sagðist ekki lofa neinu, barnið kæmist a.m.k. ekki inn í leikskólann 1. ágúst og sennilega ekki fyrr en í fyrsta lagi í september og kannski ekki þá!  Leikskólinn ætti við vanda að stríða í starfsmannamálum og verið væri að auglýsa grimmt eftir fólki.  Nú voru góð ráð dýr......  Ég mátti hringja aftur í byrjun júlí.

Þegar ég hringdi aftur í byrjun júlí var alveg sama sagan og síðast, hún gat engu lofað mér og ekkert sagt.  Þar sem ég á að byrja að vinna á nýjum vinnustað 18. ágúst fannst mér þetta ekki gott mál.  Ekki gæti ég hringt og tilkynnt forföll fram í september, eða lengur, vegna þess að ég fengi ekki pössun fyrir barnið mitt fyrr.  Ég ákvað að hafa aftur samband við leikskólafulltrúann hjá Kópavogsbæ og sagði henni hvernig í málinu lægi.  Þar sem það eru tveir leikskólar hér í hverfinu, báðir í um 5 mín. fjarlægð frá húsinu okkar, bauðst hún til að kanna málið á hinum leikskólanum.  Þegar hún hringdi aftur sagðist hún hafa rætt við leikskólastjórann á hinum leikskólanum og ég mætti hafa samband þangað í lok júlí og hann kæmist pottþétt inn þar og jafnvel fljótlega eftir fríið.

 Ég skil ekki alveg hvers vegna bréf um staðfestingu á leikskólavist eru send út til fólks,án þess að börnin séu komin með fasta og dagsetta vistun.  En ég vil hrósa leikskólafulltrúanum fyrir að vera mjög liðleg, taka erindi mínu vel og sýna mér skilning auk þess að gera allt sem hún gat til að liðka fyrir málinu.   Nú hringi ég í lok júlí og ætla rétt að vona að ég fá gleðifréttir, enda held ég að sonur minn verði orðinn þreyttur á að leika ,,bara" við mömmu í allt sumar, þó hún sé ofsalega skemmtilegWhistling

Kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Alger sæla : )

Hvað er annað hægt en að njóta lífsins þegar sólin skín og það í marga daga í röð!

Sit hér á svölunum mínum og sleiki sólina meðan yngsti maður sefur miðdegislúrinn.  Við vorum svo dugleg í morgun, drifum okkur á hjólinu niður í Salalaug þar sem við hittum mömmu.  Ragnar fékk að stinga sér með henni heim meðan ég fór í ræktina.  Sótti svo kappann til ömmu þar sem hann var í góðu yfirlæti að leika við afa og ætlaði að neita að fara heim.  Eftir nokkrar fortölur fékkst kappinn út og á hjólið.  Leiðin heim var talsvert erfið, öll upp í móti og lærin verulega lúin eftir ræktina, en allt hafðist þetta nú fyrir rest.  Eftir hádegið er stefnan tekin í sund með mömmu, Sigurrós og Rögnu Björk og örugglega smá sólbað í leiðinni.

Annars er ég alltaf að verða ánægðari með þessa ákvörðun okkar að flytja í Kópavoginn, þó það taki smá tíma að aðlagast nýjum stað.  Íbúðin okkar er svo björt og skemmtileg og fínt útsýni yfir Hellisheiði og Heiðmörkina.  Hér eru líka göngustígar um allt og aldrei þarf að fara yfir götu, því allsstaðar eru undirgöng, alger snilld.  Ég verð afskaplega lítið vör við nágranna mína í húsinu og sé ekki mikið af börnum úti að leika, en vona að það fari að breytast því stóru börnin þurfa að fara að finna sér vini.  Annars eru þau í rólegheitunum á Egilsstöðum með pabba sínum og verða örugglega viku í viðbót ef allt gengur vel.  Við Ragnar erum því bara í algeru afslappelsi hér á daginn (fyrir utan að vera að klára að koma okkur fyrir) og njótum þess alveg í botn að vera til.  Magnús er rosa duglegur í nýju vinnunni sinni og fær því miður ekki meira frí í sumar en þessar tvær vikur sem við vorum úti. 

Ég ætlaði að vera voða dugleg að skrifa um Danmerkurferðina en ég bendi áhugasömum bara á síðuna hans Magnúsar, því hann er búinn að vera svo duglegur að skrifa.

Sólarkveðjur til ykkar allra

Guðbjörg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband