Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Kennarar að brennar út........

Mikið var ég ánægð með forsíðu DV í morgun.  Fyrir þá sem ekki hafa séð hana er verið að fjalla (loksins) um flótta úr kennarastéttinni og álagi á þá kennara sem enn hafa ekki gefist upp.  Rætt er við unga konu sem búin var að mennta sig í KHÍ og gafst upp á kennslunni.  Sagðist ekki nenna að vinna fyrir þessi skítalaun og undir svona miklu álagi.  Sagði það vera nauðsynlegt að eiga góða fyrirvinnu, ætli maður sér að vera kennari.   Ég spyr, hvað þá með fjölskyldur þar sem báðir aðilar eru kennarar? Einnig kom fram að það stefndi í óefni á Höfuðborgarsvæðinu næsta vetur vegna flótta úr kennarastéttinni, það vantar a.m.k. 137 kennara fyrir næsta vetur.

Ég er svo glöð að loksins skuli fjölmiðlar vera að ranka við sér og farnir að færa fréttir af ástandinu.  Mér hefur oft dottið í hug að það þyrfti að bjóða ráðamönnum þjóðarinnar að kenna í grunnskóla í viku, því ég er viss um að þeir yrðu fljótir að gera einhverjar breytingar eftir þann tíma.  Ég hangi enn í kennarastarfinu af einskærri þrjósku.  Ég er ekki tilbúin að kyngja því, að hafa menntað mig til kennslustarfa, til að láta bola mér úr starfinu sem ég hef oftast svo gaman af.  Hins vegar hef ég tekið eftir mikilli breytingu þau 12 ár sem ég hef verið að kenna.  Stöðugt fleiri störfum hefur verið troðið inn í vinnuramma kennara, án þess að launin séu aukin í samræmi við það.  Ég hef orðið áþreifanlega vör við aukið virðingaleysi nemenda fyrir reglum, fullorðnum og eigin námi og ég tel það vera alvarlegasta vandamálið.  Ég held að þetta sé nokkurs konar þjóðfélagsmein sem er tilkomið af því að foreldrar hafi minni tíma með börnum sínum inni á heimilunum.  Ég er að minnsta kosti þreyttust á því að nemendur svari fullorðnu fólki með skít og skömm og dónalegu orðbragði og einnig samnemendum sínum.  Í vetur hefur farið meiri tími í það hjá mér og samkennurum mínum að sinna ýmsum agamálum, en kenna nemendum !  Þá er nú eitthvað verulegt að.

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Er á lífi....

Vona að ,,allir" sem lesa síðuna geti verið í rónni þegar ég læt vita af þessari staðreynd.  Bloggleysið undanfarið, má rekja til annríkis á heimilinu og í vinnunni, en einnig í heilakerfi þeirra fullorðnu á heimilinu.  Málið er nefnilega að Magnús var að fá vinnu í Reykjavík, er búinn að skrifa undir samning og allt frágengið.  Þetta starf er hjá Straumi fjárfestingabanka.  Við höfum verið að velta fyrir okkur möguleikum okkar í stöðunni í sambandi við búsetumál og daglegar keyrslur á höfuðborgarsvæðið.  Það hafa verið farnir margir hringir í ákvarðanatökunni, að vera á Selfossi, nei Reykjavík, nei Selfossi o.s.frv.  Við sjáum fyrir okkur að með hækkandi eldsneytisverði geti orðið ansi kostnaðarsamt að standa undir rekstri bíls, hvað þá bíla, því ég get ekki verið bíllaus á Selfossi meðan Magnús er í Reykjavík.  Ákvörðun var tekin um það í vikunni að skrá húsið á sölu og sjá hvort eitthvað gerðist með það mál.  Held reyndar að markaðurinn hér sé alveg dauður um þessar mundir.......... 

En ef þið vitið um einhvern sem þarf nauðsynlega að kaupa sér krúttlegt hús á Selfossi með 6 svefnherbergjum, þá sendið mér endilega póst W00t

Ég hef líka verið að velta fyrir mér hvernig ég eigi að tækla vinnumálin mín.  Er eiginlega búin að fá stöðu hér á Selfossi næsta skólaár, sem ég var mjög ánægð með.  En nú þarf ég að fara að kanna málin eitthvað á höfuðborgarsvæðinu, skilst nú reyndar að það vanti frekar kennara þar en hitt svo ég er að reyna að vera vongóð með þetta allt saman.

Mér líður eins og ég hafi verið sett í stóran rússíbana sem ég veit alls ekki hvort eða hvenær stoppar.  Allavega eru hugsanir mínar þannig þessa dagana, allar í einum graut.  Við höfum ákveðið að líta á þetta sem áskorun fyrir fjölskylduna og að þetta verði bara lítið ævintýri sem við ætlum að hafa gaman af. 

 kveðjur til ykkar allra

Guðbjörg O.


Hollustuhelgi

Það hefur verið ákveðið að fara smátt og smátt að breyta mataræði á heimilinu til hins betra, þ.e. hollari matur.   Ekki svo að skilja að við borðum afskaplega óhollan mat, en alltaf má gott bæta!

Það er ótrúlegt hvað maður getur verið vanafastur og litlir hlutir eins og að drekka mikið af vatni, vafist fyrir manni.  Ég er búin að sjá að mesta vandamálið við að breyta svona hlutum er að byrja að breyta hugarfarinu.  Hugsa um hvað er gott fyrir mann og hvað lætur manni líða vel, en ekki hvað er ómótstæðilegt og lætur manni svo kannski líða illa lengi á eftir, að ég tali nú ekki um samviskubitið! 

Ég er svo heppin að vera að vinna með konu sem er dugleg að borða hollt fæði og lumar á ýmsum góðum uppskriftum og hugmyndum.  Ég fékk hjá henni uppskrift af pizzabotni úr spelti og lyftidufti, reyndar líka brauðuppskrift.  Ég bakaði pizzuna í gærkvöld og setti á hana hakk, papriku, tómata og sveppi og auðvitað sósu og svolítið af osti.  Mér fannst þessi pizza mun betri en þær sem maður kaupir á pizzastað, auk þess sem hún fór mun betur í maga.  Gerið var ekki að segja til sín allt kvöldið.  Samstarfskona mín laumaði líka að mér að hún poppi alltaf úr kókosolíu þegar hún fær sér popp.  Þetta prófaði ég líka um helgina og héðan í frá borða ég ekki öðruvísi popp.   Það kemur örlítill kókoskeimur af poppinu og þetta er sjúklega gott, í viðbót við það að það er bara ,,holl" fita í kókosolíu, engar transfitur!

Ég ætla að fara rólega á þessari braut svo ég geri fjölskylduna nú ekki afhuga tilrauninni svona í fyrstu atrenu.  Kynna inn eitthvað nýtt svona smátt og smátt og sjá hvernig það fellur í kramið.  Grunar reyndar að húsbóndinn á heimilinu komið til með að eiga hvað erfiðast með að aðlagast heilsustefnunni, en sjáum hvað setur!

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Vefja.....

Við lentum í stórkostlegu atviki í síðustu viku.  Við vorum á leið heim úr bænum og ákváðum að koma við á bensínstöð á heimleiðinni og kaupa okkur eitthvað í svanginn.  Magnús ákvað að fá sér pylsu og við Karlotta ætluðum að fá okkur vefju (tortillaköku).  Við fórum bara í lúguna til að versla svo við þyrftum ekki að fara inn.  Á mótin okkur tekur c.a. 17 ára gömul afgreiðslustúlka og Magnús pantar strax eina pylsu.  Svo kemur að mér að panta ,,ég ætla að fá tvær svona vefjur með kjúkling" segi ég í mesta sakleysi.  Afgreiðslustúlkan horfir á mig, eitt spurningamerki í framan ,,vefju" endurtekur hún síðan.  Áður en mér gefst tími til að útskýra þetta nánar segir hún ,,ertu að meina svona til að vefja um hendina, svona til stuðnings"?  Guð hvað ég þurfti að halda niður í mér hlátrinum.  Ég leit á Magnús og sá að hann var alveg að springa við að stilla hláturinn og heyrði bara skríkjur frá Karlottu í aftursætinu.  Afgreiðslustúlkan horfði á mig grafalvarleg og beið eftir svari, meinti þetta alveg frá innstu hjartarótum.  ,,Nei, þetta er til að borða, svona tortillakökur með áleggi, skornar í tvennt í svona pakka" reyni ég að útskýra.  En stendur daman með spurningamerki á andlitinu og á meðan er ég að hugsa hvernig í fjáranum ég eigi að útskýra þetta nánar.  Þá segir hún allt í einu ,, já, ertu að meina svona frá Sóma"?  Já, já flýti ég mér að segja um leið og hún leggur af stað að sækja eitthvað og við sprungum úr hlátri í bílnum, gátum ekki haldið honum niðri lengur.  Afgreiðslustúlkan kemur svo að vörmu spori og ótrúlegt en satt með rétta vöru meðferðis, en þá upphófst lestur hjá henni til að láta mig velja rétta áleggið.  ,,Þessi er með Tikkamasla eða eitthvað" og framhaldið á lestrinum var eftir þessu.  Ég flýtti mér að velja fyrstu tvær sem hún las á og afþakkaði vinsamlega þegar hún bauðst til að fara og sækja meira, það væru til fleiri tegundir!  Við rétt náðum að borga fyrir hlátrinum sem sauð niðri í okkur og þegar við ókum burt frá lúgunni sprungum við úr hlátri.   Magnús notar nú hvert tækifæri til að spyrja mig hvort ég vilji ekki ,,svona vefju" í matinn í dag.

Þarf ekki að hafa smá svona common sense til að fá vinnu við afgreiðslustörf?

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband