Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Mesta sjokkið að líða hjá........

Það er ekki laust við að maður sé búinn að vera hálf lamaður undanfarinn sólarhring.  Ég var stödd hér ein heima með Ragnar í gær þegar jörð fór að hristast.  Jarðskjálftinn byrjaði allt í einu, engar drunur fyrst, heldur byrjaði allt að hristast skyndilega.  Ég stóð á miðju gólfi og horfði á húsið sveigjast til og frá og hugsaði með mér að nú væri það örugglega farið af grunninum.  Það vildi svo vel til að við erum að flytja og því búin að pakka öllu niður svo það skemmdist ekkert hjá okkur nema eitt rakspíraglas sem datt í gólfið og brotnaði.  Karlotta var hjá vinkonu sinni og þar skemmdist mikið og brotnaði.  Þegar Magnús kom heim sóttum við Karlottu og Odd og gripum með okkur í bílinn tvö nágrannabörn sem voru ein heima.  Við vorum bara í bílnum okkar að keyra í þrjá tíma, því fólk var hvatt til að vera ekki heima innan dyra.  Vinur okkar er í lögreglunni og við hittum hann í miðbænum, hann vissi ekkert um sína eigin fjölskyldu sem býr á Eyrarbakka svo við brunuðum þangað fyrir hann til að kanna málið.  Þar var enginn heima en mikið brotið og bramlað.  Við fórum aðeins í Vallaskóla þar sem komið var upp fjöldahjálparstöð og ég fór að smyrja brauð og hita kaffi með fólki frá Rauða krossinum.  Þangað var komið fólk til að fá samastað og mat og sumir grétu og voru í miklu uppnámi.  Þarna voru einnig nokkur börn sem höfðu verið ein heima þegar skjálftinn reið yfir og verið var að bíða eftir áfallahjálp fyrir þau.  Þegar ég fór einnig kominn prestur á staðinn.

Við ákváðum að hætta okkur heim um kl. 19:00 því við vorum orðin svo svöng.  Við höfðum ekki verið svo forsjál að vera búin að versla og erum að flytja þannig að lítið var til af mat í kotinu.  Við fundum þó hafragrjón og gerðum okkur hafragraut, en allar búðir og fyrirtæki lokuðu s°strax eftir skjálftann enda allt í rúst.  Það verða engir skólar í dag svo við erum bara heima með börnin og bíðum frétta.  Reyndar er vatnsból okkar Selfyssinga mengað svo ekki má drekka vatn úr krönunum.  Magnús fór að sækja vatn í brúsa í tankbíl sem er við Vallaskóla.  Ég er að hugsa um að koma stóru börnunum til pabba síns í dag og jafnvel Ragnari til ömmu sinnar.  Held ég verði rólegri að vita af þeim á öruggum stað meðan ég geri klárt fyrir flutninga.

Það er ekki laust við að maður sé enn svolítið skjálfandi eftir þessa lífsreynslu og farin að hlakka til að flytja í Kópavoginn á sunnudaginn, ef það verður búið að hleypa umferð vörubíla á brúnna :  )

Aðalatriðið er að fólk slasaðist ekki alvarlega, en fólki er auðvitað brugðið og margir enn í sjokki.  Ljóst er að margir hafa misst mikið af innbúi sínu, allt brotið og bramlað og mikil vinna framundan við að þrífa upp og sumt verður ekki bætt.  Við erum svo lítil þegar náttúruöflin eru annars vegar.  Ég þakka guði fyrir að mitt heimili slapp vel og sömuleiðis allt mitt fólk og vinir.

Guðbjörg Oddsd.


Brjálað að gera..........

Það er aldeilis mikið að gera á heimilinu um þessar mundir.  Ljóst er að við erum að flytja um næstu mánaðamót og allt á fullu að byrja að pakka.  Einnig eru allir fjölskyldumeðlimir að keppast við að klára skólana sína, ýmis sem kennarar eða nemendur.  Við ætlum að flytja í Kópavoginn, í Ásakórinn og búin að finna fína íbúð þar.

Annars er yngsti karl búinn að vera svo hundlasinn að hann þurfti að dvelja aðeins inni á Barnaspítala.  Barnið fékk svo heiftarlega upp og niður pest að hann var orðinn þurr, ekkert búinn að láta ofan í sig í 3 - 4 sólarhringa.  Hann fékk næringu í æð í gærkvöld og glúkósa, hresstist heldur af því.  Samt er magapínan enn mikil og ekkert lát virðist á.  Hann var orðinn svo máttfarinn í fyrradag að hann lá bara og svaf, eins og í móki.  Vonandi fer hann að braggast annars þurfum við örugglega aftur inn á Barnaspítala.  Hann átti einmitt að vera að fara í rör og að láta taka nefkirtla á morgun, en það er of hættulegt þegar svona stendur á.

Ég hef því verið mjög löt að blogga sökum brjálaðs annríkis og mun það áreiðanlega verða svo enn um sinn.  Bið ég því mína fáu, en dyggu lesendur að vera þolinmóða í minn garð.  Minn tími mun koma........

kveðja til ykkar allra

 Guðbjörg


Smá blogg

Vona að það séu ekki alveg allir búnir að gefast upp á bloggleysinu í mér.  Það er bara búið að vera eitthvað svo brjálað að gera á öllum vígstöðvum (meira um það síðar). 

Við Ragnar verðum bara ein í kotinu um helgina, því Magnús og Bjarki Már fóru norður og Karlotta og Oddur eru hjá pabba sínum í Kópavoginum.  Annars erum við í hálfgerðu stofufangelsi því Magnús fór á bílnum okkar og Ragnar er auðvitað lasinn.  En það er búið að versla mat og drykk svo við sveltum ekki og svo verðum við bara að leika okkur og dúllast eitthvað saman.

Hef vonandi tækifæri til að blogga eitthvað meira um helgina.

Kveðjur til ykkar allra

Guðbjörg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband