Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Er ég orðin svona gömul?

Ég ákvað að skella loks inn einni færslu svona eftir fyrstu vikuna með krúttunum mínum mínum í 1. bekk.

Ég lenti í mjög skemmtilegu atviki á s.l. miðvikudag þegar ég skellti mér í Krónuna að versla.  Ég hitti konu sem ég þekkti strax, en hún var móðir stelpu í fyrsta bekknum ég kenndi eftir að ég útskrifaðist úr kennó.  Hún þekkti mig lika strax og við fórum að spjalla.  Af því að maður er svo sjálflægur finnst manni alltaf að umheimurinn standi í stað meðan tíminn líður hjá manni sjálfum.  Þess vegna fékk ég svona nett sjokk þegar ég komst að því að þessi stelpa er núna 19 ára gömul og ég var að kenna henni þegar hún var 6 og 7 ára!  Móðirin huggaði mig með því að segja að ég liti nú alltaf svo unglega út (vorkenndi mér sennilega við þessa uppgötvun ; )).  Annars þótti mér svo vænt um að mamman sagði mér að af þeim kennurum sem dóttirin hefði haft, væri ég og önnur sem kenndi henni líka þegar sú var nýútskrifuð, bestu kennararnir sem hún hefði haft.  Það færi sko ekki allt eftir reynslunni heldur líka persónuleikanum - ég get ekki lýst því hvað mér þótti vænt um þessi orð.  Maður hefur kennt mörgum og oft velt fyrir sér hvort manni hafi tekist að marka einhver spor í lífi viðkomandi.  Ég bað hana að skila kveðju til dömunnar ef hún myndi eftir mér og mamman sagði að hún myndi sko vel eftir mér og ætlaði að skila því.

Annars er ég búin að kenna 1. bekknum mínum í eina viku og búið að vera mikið gaman.  Auðvitað tekur það á þolinmæðina því þessar elskur eru auðvitað ekki alveg búin að læra að vera í skóla og tala öll í einu og vilja þjónustu strax.  Það eru á börn í bekknum mínum og enginn stuðningsfulltrúi mér til aðstoðar.  Það leggst mjög vel í mig að vinna í þessum skóla, líst mjög vel á samstarfsfólkið og stjórnendur.  Karlotta og Oddur eru líka ánægð og líst bara vel á, eru svona að þreifa fyrir sér í vinamálunum.  Annars vorum við með bekkinn hans Odds hér í afmæli á fimmtudaginn.  Ég bakaði nokkrar pizzur og gerði súkkulaðiköku og svo var farið í ýmsa leiki.  Það var mikið fjör í mannskapnum og ég fann verulega til með fólkinu á neðri hæðinni.  Ég var alveg búin á því eftir þessa viku, enda var annað afmæli hér fyrir familíuna s.l. laugardag, svo ég lak niður í sófann í gærkveldi og sleppti meira að segja fyrsta partýinu á nýjum vinnustað.

Kveðja úr Kópavoginum

Guðbjörg


Fyrsta vinnuvikan

Það er lítill tími í blogg þessa dagana svo ég verð að blogga almennilega síðar.  Ég er á fullu að undirbúa komu 6 ára barna í Hörðuvallaskóla, en ég mun vera með umsjón í 1. bekk í vetur.  Oddur og Karlotta eru að fara í viðtal hjá sínum kennurum á morgun og svo hefst skólinn á mánudag.  Á laugardag er svo stefnt að því að halda afmælisveislu fyrir Odd Vilberg.  

Kveðja

Guðbjörg


Borgarstjórnarfarsinn

Ég veit bara ekki hvar þetta endar með borgarstjórnina í Reykjavík.  Enn á ný hefur samstarfi verið slitið í stjórn Reykjavíkurborgar og enn einn borgarstjórinn á leiðinni á biðlaun.  það hlýtur að vega þungt í rekstri borgarinnar að punga út öllum þessum aukamillum vegna biðlauna, sérstaklega þegar um er að ræða 1,1 miljón á mánuði sem eru laun borgarstjóra.  Kannski má segja að þetta sér betri kostur, af tvennu illu, fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  En óneitanlega gerir þetta það að verkum að almenningur hlýtur að fara að missa allt traust á það fólk sem fer með stjórn borgarinnar, sama úr hvaða flokki það er.  Er ekki löngu orðið tímabært að maður geti bara kosið einstaklinga en ekki þessa flokka, bæði í bæjarmálapólitíkinni og í sveitastjórnarkosningum.  Ég er að öllu jöfnu ekki mjög pólitísk og hvað þá að ég sé að festa eitthvað á prent í þeim efnum, en þetta er alveg ótrúlegur farsi.

Kveðja til ykkar allra

Guðbjörg (að íhuga framboð : )


Síðasta vikan í afslöppun....

Ætla að reyna að njóta þessarar viku í botn, þar sem ég fer að vinna á mánudaginn.  Annars er kannski ekki alveg hægt að segja að það hafi verið tóm afslöppun hér í sumar.  Flytja, koma sér fyrir, fara í ferðalög, Ragnar ekki á leikskóla og stóru börnin ekki búin að kynnast neinum krökkum.  Ég er búin að vera í fullu starfi sem ,,skemmtikraftur" barnanna minna undanfarið og það er bara hörkujobb Smile

Nú ætla ég að fara að grafa eftir skóladótinu mínu í geymslunni, get ekki beðið eftir fyrsta vinnudeginum.  Enda ástæðan fyrir því að ég er kennari sú að nú geta alltaf verið í skóla, jibíííí.

Kveðja

Guðbjörg O.


Ættartengsl....

Í gær fór ég á stutt ættarmót í Árnesi.  Þar komu saman afkomendur Ingigerðar Runólfsdóttur og Þorsteins Þorsteinssonar frá Berustöðum, sem voru langa,lang amma mín og afi. 

Það er alltaf gaman að hitta ættingja sína, suma þekkir maður vel, aðra kannast maður við og enn aðra hefur maður aldrei séð.  Karlotta komst að því að drengur sem hefur verið með henni í bekk í 4 ár í Vallaskóla á Selfossi er skyldur henni, þetta þótti okkur mjög merkilegt.  Sigurrós systir mín komst líka að því að bekkjarsystir hennar úr MR er skyld henni.  Þetta er það sem er svo skemmtilegt við svona ættarmót.  Við vorum líka ótrúlega heppin með veður því sólin skein og börnin gátu því leikið sér úti, enda ekki mjög áhugasöm um ræður og langar tölur um ættartengsl.

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg


Norðurlandið....

Við tókum ákvörðum um það á fimmtudagskvöld að skella okkur á Sauðárkrók með fjölskylduna um verslunarmannahelgina.  Ég pakkaði í bílinn á föstudaginn og svo fórum við krakkarnir að sækja Magnús í vinnuna kl. 16 og lögðum þá beint af stað.  Það var nú ekki mikil umferð á leiðinni, ekki eins og maður hefði haldið að væri um verslunarmannahelgi.  Ferðin gekk vel fyrir sig og við vorum komin á Krókinn rúml. 8.  Bróðir hans Magnúsar, Birkir Már, býr á Sauðárkróki í stóru einbýlishúsi svo við fengum bara herbergi fyrir okkur.  Tengdaforeldrar mínir komu líka þangað á föstudaginn ásamt systurdóttir Magnúsar, henni Heiðbjörtu.  Á laugardag kom síðan systir hans Magnúsar eldri dóttir hennar Íris og hann Jóel litli 3 mánaða snúður.  Veðrið lék nú ekkert við okkur um helgina en þó var ýmislegt gert sér til dundurs.  Á laugardaginn skruppum við aðeins í Skagfirðingabúð og fórum síðan eftir hádegi á smá rúnt , framhjá Hólum og Hofsósi og fengum okkur síðan kaffi og eplaköku í Lónkoti.  Tengdapabbi grillaði síðan læri í kvöldmatinn og allir borðuðu á sig gat, enda bragðið algerlega himneskt.  Þau hjónin höfðu kryddað það með rósmarín, hvítlauk ofl. og ég hef sjaldan eða aldrei borðað jafn gott lambakjöt. 

Á sunnudaginn skruppum við að Grettislaug til að fara í bað.  Börnin fengu fræðslu um Gretti og afrek hans, áður en haldið var af stað.  Hanna Gunna, Íris og Jóel litli fóru reyndar heim til Akureyrar, því sá litli var orðinn ergilegur.  Veðrið var ekki sem best, ansi mikið rok og ekki mjög hlýtt svo við Ragnar Fannberg dunduðum okkur við að horfa á stóra gröfu sem var við vinnu hjá lauginni meðan hinir skelltu sér í bað.  Krakkarnir skemmtu sér ótrúlega vel og var það mikil upplifun fyrir þau að fara í svona náttúrulega laug.  Þeim þótti heldur ógeðslegt að baða sig innanum slím og annan ófögnuð, til að byrja með, en það gleymdist fljótt.  Það kom sér vel að það eru tvær sturtu heima hjá Birki, því öll hersingin varð að þvo sér rækilega þegar heim var komið og hlýja sér svolítið í leiðinni.  Um kvöldið borðuðum við gómsætan grillaðan lax.  Karlarnir og Oddur fóru í pool og pílukast í bílskúrnum eftir matinn, en konur og stelpur horfðu á bíómynd í sjónvarpinu.

Fjölskyldan lagði svo af stað heim um 11 leytið í gær, til að lenda ekki í mestu umferðinni og var komin í höfuðborgina um 14:30.  Þá fórum við beint í pönsur og nýbakað brauð hjá Mömmu og Hauki í Fensölunum.   Næstu dagar fara líklega í að þvo þvotta, því af nógu er að taka þar sem Oddur og Karlotta komu með flugi frá Egilsstöðum á fimmtudaginn s.l. eftir rúmlega viku fyrir austan.

Morgninum var eytt ásamt Sigurrós og Rögnu Björk í sólbaði og busli í Salalauginni og í dag er stefnan tekin á Fjölskyldu og Húsdýragarðinn, ef sólin lætur sjá sig aftur undan skýjunum.

Kveðjur til ykkar allra

Guðbjörg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband