Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Samsæri......

Synir mínir skipulögðu samsæri gegn mömmu sinni í nótt. 

Eftir afmælishald í gær og undirbúning, bakstur og tilþrif fyrir afmæli á laugardag, var húsmóðirin á heimilinu orðin frekar lúin.  Ég var búin að ákveða að fara í bað í gær eftir Mannaveiðar og hafa það huggó, fara síðan snemma í rúmiðKissing.  Nákvæmlega á því augnabliki sem ég ætlaði að setjast niður og horfa á þáttinn fór eldri sonur minn á kvarta yfir magaverkjum og gubbaði síðan.  Það sem eftir var kvölds og fram til kl. þrjú í nótt, fór í að sinna honum og skola sæng og rúmföt og föt o.s.frv.  Ég ,,svaf" á svefnsófanum í sjónvarpsherberginu, þar sem ég var búin að planta honum, svo ég þyrfti ekki að standa uppá endann í alla nótt. 

 Þegar hann loks sofnaði heyrði ég óp úr svefnherberginu okkar, það var bóndinn sem æpti ,,hann er að æla".  Ég stökk á fætur og inn í herbergi og við mér blasti sérlega ,,ánægjuleg" sjón.  Tveggja ára snáðinn búinn að gubba allt út, sjálfan sig meðtalinn.  Þegar búið var að skola úr öllu og skipta um föt á snáðanum var hann hinn hressasti og alls ekki á þeim buxunum að fara að sofa.  Ég reyndi að beita öllum brögðum við að svæfa hann, en allt kom fyrir ekki.  Loksins lognaðist hann útaf klukkan rúmlega fimm.  Við sváfum þrjú inni í sjónvarpsherbergi það sem eftir lifði ,,nætur", en bræðurnir voru glaðvaknaðir og hressir rétt fyrir níu í morgun. 

Mamma þeirra var hvorki glaðvöknuð né hress og hefur sinnt störfum sínum með hangandi haus það sem af er degi. 

Er það löglegt að börn skipuleggi svona samsæri gegn foreldrum sínum, ég bara spyr Police?

kveðja til ykkar allra

Guðbjörg

p.s. Ég óska Gústu frænku minni til hamingju með 30 + afmælið í dagWink


Hann á afmæli í dag......

rfm1

 

Afmælisbarn dagsins er Ragnar Fannberg.  Pilturinn er 2 ára í dag.  Hann er hér að borða uppáhaldið sitt, jarðaber og þeyttan rjóma.  Til hamingju með daginn Ragnar minn.


Guðbjörg Oddsdóttir eldri, in memorian

 

Bagga

Ég fékk þær fréttir á afmælisdegi mínum 20. mars að hún amma mín og alnafna Guðbjörg Oddsdóttir væri dáin.  Amma mín var alger hetja, hún var búin að berjast við krabbamein í nokkur ár, en var samt alltaf jafn sæt og fín og vel til höfð.  Ég á margar góðar minningar af henni ömmu minni.  Ég fékk t.d. oft að gista hjá henni í Stórholtinu og var Gústa frænka mín þá oft þar líka.  Ég dáðist að þolinmæði ömmu við okkur frænkur, því oft tókum við upp á ýmsu mis sniðugu.  Við fengum stundum að leika okkur uppi á háalofti og fundum þar alls kyns gamalt dót sem við máttum hafa.  Amma fór tvisvar sinnum með okkur frænkur í Galtalæk um verslunarmannahelgi, á útihátíð.  Ég held að amma hafi skemmt sér jafn vel og við frænkurnar.  Mér er þó alltaf minnistætt þegar við komum heim í tjald af einu ballinu og amma beið eftir okkur og var búin að vera að halda sér vakandi til að halda tjaldinu heitu fyrir okkur með prímus. Þetta lýsir ömmu minni vel, alltaf að hugsa um og gera eitthvað fyrir alla hina.  Amma mín bjó ein í mörg ár eftir að afi minn dó og var alltaf bíllaus, því hún hafði aldrei tekið bílpróf.  Hún var síðan svo heppin að kynnast honum Inga Birni og saman ferðuðust þau mikið, bæði innan lands og utan.  Bestu minningar mínar eru þó tengdar sveitinni hennar ömmu, Heiði á Rangárvöllum.  Það var alltaf svo yndislegt að vera í sveitinni bæði í rólegheitum og með allri stórfjölskyldunni.  Síðast fór ég þangað í ágúst s.l. þegar fólk af heilu ættarmóti mætti þangað í kaffi og samlokur.  Þá vorum við öll að koma frá Keldum, þar sem við heiðruðum minningu látinna ástvina okkar sem þar eru grafnir.  Nú mun hún amma mín blessuð hvíla þeirra á meðal, í sveitinni sem henni þótti svo vænt um.   Ég veit að pabbi minn og afi taka vel á móti ömmu á himnum.  Blessuð sé minning hennar.

Guðbjörg Oddsdóttir, yngri 


Langþráð páskafrí.....

Er að upplifa þvílíkt spennufall eftir annríki vikunnar.  Í gær var haldið upp á afmæli heimasætunnar og hér voru rúmlega 20 börn á ellefta aldursári.  Karlotta vildi hafa afmæli fyrir allan bekkinn, en ég held bara að taugar mömmu hennar leyfi ekki annað svona 3 tíma afmæli W00t, ég var farin að telja niður eftir 20 mínútur.  Ég endaði svo með því að stela ,,afmælisbarninu" (sem reyndar á afmæli 19. mars) úr veislunni og fara með hana og Ragnar Fannberg á læknavaktina, þar sem í ljós kom að hann var kominn með eyrnabólgu og guð má vita hvaða bólgu..........og hún með streptokokka.  Nú voru góð ráð dýr því við Magnús urðum bæði að mæta til vinnu í dag, hann á mikilvægan fund og ég með árshátíð hjá nemendum mínum.  Að lokum var brugðið á það ráð að veiku börnin voru saman heima og Karlotta passaði Ragnar með fyrirmæli um að hringja í ömmu ef eitthvað væri.  Árshátíðin gekk mjög vel, en það voru þreyttir nemendur og kennarar sem héldu í páskafrí eftir hádegið.  Þegar ég kom heim skellti ég mér í að ryksuga aðeins eftir afmæli gærdagsins.  Síðan skellti ég mér í bæinn að skoða íbúðina hjá mútter, ég hef nefnilega ekkert sé hana og orðin verulega forvitin.  Karlotta fór með okkur og nokkrir kassar sem áttu að fara í nýja bílskúrinn.

Þegar við vorum í Fensölunum hringdi Loftur frændi minn til að segja okkur að hún amma mín elskuleg, sem liggur á líknardeildinni á Landakoti, væri orðin mjög slæm og líklega ekki mikið eftir.  Við drifum okkur í heimsókn til hennar og hittum þar fyrir frændfólk okkar sem var hjá henni.  Við stoppuðum ekki lengi til að þreyta hana ömmu mína og alnöfnu ekki.  Hún Guðbjörg Oddsdóttir amma mín er alger hetja, var alveg með á nótunum og þekkti okkur alveg og reyndi að spjalla við okkur, þrátt fyrir að vera langt leidd af krabbameini.  Það var erfitt að keyra heima á Selfoss því það var stutt í tárin, það er alltaf erfitt að horfa á ástvini sína svona mikið veika.  Kvöldinu verður varið fyrir framan sjónvarpið, enda veruleg þreyta og spennufall farið að segja til sín. 

Kveðja til ykkar

Guðbjörg Oddsd. jr.


Afmæli og aftur afmæli.....

Þá er best að skrifa nokkur orð.  Mikið annríki hefur verið á heimilinu undanfarið í viðbót við veikindi litla mannsins.  Mamma og Haukur voru að koma heim frá Tenerife á miðvikudagskvöld og á föstudagskvöld skellti húsmóðirin á heimilinu sér á langþráð djamm.  Starfsmenn Sunnulækjarskóla voru að kveðja Loga aðstoðarskólastjóra og af því tilefni fórum við á Draugasetrið á Stokkseyri og þaðan á Rauða húsið á Eyrarbakka í mat.  Þar var sungið og trallað og borðað og drukkið og allt mjög skemmtilegt.  Á laugardagsmorgun hófst ég handa við að mála svefnherbergið.  Ég valdi rosa flottan súkkulaðibrúnann lit á einn vegginn og hinir voru málaðir í sama ljósa lit og þeir höfðu verið.  Stefnan er að kaupa nýtt rúmteppi og gardínur og jafnvel fallegt myndverk á brúna vegginn.  Ég var alveg búin á því þegar ég settist fyrir framan imbakassann á laugardagskvöldið.  Í dag fórum við svo í bæinn í afmæli hjá Rögnu Björk, en hún fæddist fyrir nákvæmlega einu ári síðan.  Það var mikið um dýrðir í veitingunum hjá Sigurrós, hélt bara að þetta væri fermingarveisla Smile

Krakkarnir eru að fara að keppa í sundi á þriðjudaginn og ég ætla að kíkja á þau.  Á fimmtudaginn ætlar Karlotta svo að bjóða bekknum sínum í afmælisveislu, því við verðum ekki heima á afmælisdaginn hennar og auk þess komið páskafrí í skólanum.  Á föstudaginn verða nemendur mínir með árshátið í skólanum og eftir hádegi ætla ég að bruna heim og pakka niður fyrir fjölskylduna og þrífa húsið.  Laugardagurinn fer í að flytja mömmu og Hauk í kópavoginn, en þau eru búin að panta flutningabíl fyrir allt stóra dótið og ætla svo að smá flytja hitt sjálf í rólegheitunum.  Á sunnudaginn mun fjölskyldan síðan fara í langþráð frí norður til Akureyrar þar sem við förum í 50 afmæli hjá Axel og höldum upp á öll afmælin í fjölskyldunni.

Það er sem sagt nóg af verkefnum framundan og engin lognmolla hér frekar en fyrri daginn.

Lifið heil

Guðbjörg


Langþráðar hurðir....

Ég er að bíða eftir smiði til að setja loksins upp hurðir í bílskúrnum.  Hann ætlaði reyndar að vera kominn fyrir 30 mín. síðan en ég held í vonina um að hann skili sér.  Það er löngu búið að kaupa hurðirnar og hafa þær staðið einar og yfirgefnar í von um að verða einhvern tíman settar upp.  Það klikkaði eitthvað smá við útreikningana á hæð hurðaopanna, það var reiknað út áður en gólfið var flotað og svo reyndust þau aðeins of stutt þegar búið var að flota.  Smiðurinn sagði að þetta yrði heilmikil vinna og myndi áreiðanlega kosta sitt Whistling 

Stóru börnin verða ótrúlega fegin að fá hurðir fyrir herbergin sín.  Foreldrarnir verða það líka því stundum verða ýmsar uppákomur milli þeirra systkina í nábýlinu, sérstaklega þegar engar hurðir eru, þá er eins og þau séu í sama herbergi!  Það verður líka ljúft að fara að heyra aftur hurðaskelli þegar skapvonskan grípur liðið.

 hafið það gott elskurnar

Guðbjörg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband