Öskudagur
6.2.2008 | 11:36
Sit hér heima úr vinnu með Ragnar Fannberg, sem ákvað að verða veikur í dag. Annars er hann búinn að vera ansi oft veikur í vetur. Maður er farinn að skammast sín að hringja í vinnuna og tilkynna forföll og flensan ekki komin á heimilið.
Það var mikið að gera á heimilinu í morgun við að klæða börnin í búninga og mála þau áður en þau fóru í skólann. Karlotta ætlar að vera Amor í dag og var búin að hanna sér búning alveg sjálf. Fékk reyndar hjálp frá ömmu sinni í gærkveldi við að klára smá saumaskap. Annars sat hún hér seinnipartinn í gær að dunda sér við að útbúa örvar úr greinum sem hún klippti af trjánum í garðinum (hm, hm) og saumaði hjörtu úr filti á endana. Hún var líka búin að sníða og sauma poka undir örvarnar. Ég á nú alveg ótrúlega duglega dóttir Í morgun þurfti svo að túbera hárið og spreyja það hvítt. Ég þurfti nú aðeins að stríða henni og sagði að nú gæti hún séð hvernig hún yrði þegar hún yrði gömul. Hún hélt reyndar að sennilega yrði hún með fleiri hrukkur.
Oddur Vilberg ætlar að vera rappari í dag. Hann fór í allt of stórar gallabuxur og gekk á buxnaskálmunum, því það skyldi sko sjást í nærbuxurnar við buxnastrenginn og það all rækilega. Hann lét sem vind um eyru þjóta ræðu mömmu sinnar um að honum yrði kalt að ganga svona um bæinn og ætlaði ekki einu sinni með úlpu með sér. Hann tók hana nú með fyrir rest, þegar ég var búin að halda ræðuna um að þeir sem búa á Íslandi þurfi að klæða sig eftir veðri. Þori að veðja háum upphæðum um að úlpan verði fyrir einhverra hluta sakir, eftir á snaga í skólanum í dag . Oddur var með klút og derhúfu á höfðinu og í stórri hettupeysu með dollarahálsmen um hálsinn. Hann afþakkaði pent allan akstur í dag og sagðist sko ætla að labba með strákunum.
Ragnar Fannberg átti að vera kisa og fara á ball í leikskólanum í dag. Það var kannski heppilegt að hann var lasinn því hann vill ekki sjá þennan kisubúning í dag, ekki að ræða það að fara í hann!!! Spígsporar bara um í náttfötum og með hor í nefi. Reyndar er hann búinn að vera alveg á útopnu í morgunn, upp um allt og fiktandi í öllu. endaði með því að ég lét hann leggja sig rúmlega 10 enda var hann vaknaður kl. 6 í morgun.
Jæja piltur er að vakna og ég ætla að fara að gera mig klára til að keyra Karlottu aðeins um bæinn í sælgætisleit eftir skóla (þegar Magnús kemur á vaktina) því hún er að fara í tónlistarskólann og á sundæfingu seinnipartinn. stíft prógramm eins og endra nær.
Hafið það gott
Guðbjörg
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég vil sko fá að sjá myndir af systurbörnum mínum í glæsilegu búningunum þeirra! Er Magnús búinn að setja einhverjar myndir af þeim á síðuna sína?
Og mikið rosalega dáist ég að dugnaðinum í henni frænku minni! Þetta er myndarkona sem þú átt :)
Sigurrós (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 00:10
Hún á nú ekki langt að sækja myndarskapinn og áræðið hún Karlotta okkar. Ég man nú eftir mömmunni þegar hún var á svipuðum aldri og var búin að klippa kögur upp í brúnan molskinnsjakka og pils þegar ég kom heim úr vinnunni, því hún ætlaði sko að vera indjánastelpa. Þegar hún var síðan komin í búninginn og með svarta hárkollu með ennisbandi og fjöður þá var hún bara alveg eins og indjánastelpa. Því miður var minna um myndatökur í den svo ég held að engin mynd sé til af þeim búningi.
Mamma (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 19:45
Hmmm... man ekki hvort það er til mynd af þér í indjánamúnderingunni en litla systir fékk nú síðar fengið að njóta góðs af :) Ég fékk jakkann m.a. lánaðan í pallatriði í Laugarnesskólanum en þar klæddist Finnur honum og söng "alveg ofboðslega frægur". Og fyrst jakkinn er orðinn "alveg ofboðslega frægur" þá þyrfti ég nú að athuga hvort ég á ekki mynd af honum ;)
Annars er ein af mínum uppáhaldsöskudagsmyndum myndin af þér og Huldu þegar þið klædduð ykkur upp sem gömul hjón. Þú varst alveg stórkostleg í þínu gervi! :) Veit að mamma á þær myndir.
Sigurrós (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 00:52
Ég man nú þetta með indíánabúninginn aðeins öðruvísi en mamma. Hann var nefnilega ekki öskubúningur, heldur ballklæðnaður, þegar hann var saumaður. Seinna var hann einmitt nýttur sem öskudagsbúningur
Mér finnst nú alltaf sætust myndin af okkur systrunum þar sem við erum málaðar eins í framan.
Guðbjörg (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.