Langþráð páskafrí.....

Er að upplifa þvílíkt spennufall eftir annríki vikunnar.  Í gær var haldið upp á afmæli heimasætunnar og hér voru rúmlega 20 börn á ellefta aldursári.  Karlotta vildi hafa afmæli fyrir allan bekkinn, en ég held bara að taugar mömmu hennar leyfi ekki annað svona 3 tíma afmæli W00t, ég var farin að telja niður eftir 20 mínútur.  Ég endaði svo með því að stela ,,afmælisbarninu" (sem reyndar á afmæli 19. mars) úr veislunni og fara með hana og Ragnar Fannberg á læknavaktina, þar sem í ljós kom að hann var kominn með eyrnabólgu og guð má vita hvaða bólgu..........og hún með streptokokka.  Nú voru góð ráð dýr því við Magnús urðum bæði að mæta til vinnu í dag, hann á mikilvægan fund og ég með árshátíð hjá nemendum mínum.  Að lokum var brugðið á það ráð að veiku börnin voru saman heima og Karlotta passaði Ragnar með fyrirmæli um að hringja í ömmu ef eitthvað væri.  Árshátíðin gekk mjög vel, en það voru þreyttir nemendur og kennarar sem héldu í páskafrí eftir hádegið.  Þegar ég kom heim skellti ég mér í að ryksuga aðeins eftir afmæli gærdagsins.  Síðan skellti ég mér í bæinn að skoða íbúðina hjá mútter, ég hef nefnilega ekkert sé hana og orðin verulega forvitin.  Karlotta fór með okkur og nokkrir kassar sem áttu að fara í nýja bílskúrinn.

Þegar við vorum í Fensölunum hringdi Loftur frændi minn til að segja okkur að hún amma mín elskuleg, sem liggur á líknardeildinni á Landakoti, væri orðin mjög slæm og líklega ekki mikið eftir.  Við drifum okkur í heimsókn til hennar og hittum þar fyrir frændfólk okkar sem var hjá henni.  Við stoppuðum ekki lengi til að þreyta hana ömmu mína og alnöfnu ekki.  Hún Guðbjörg Oddsdóttir amma mín er alger hetja, var alveg með á nótunum og þekkti okkur alveg og reyndi að spjalla við okkur, þrátt fyrir að vera langt leidd af krabbameini.  Það var erfitt að keyra heima á Selfoss því það var stutt í tárin, það er alltaf erfitt að horfa á ástvini sína svona mikið veika.  Kvöldinu verður varið fyrir framan sjónvarpið, enda veruleg þreyta og spennufall farið að segja til sín. 

Kveðja til ykkar

Guðbjörg Oddsd. jr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulla Dan

Gleðilegt páskafrí

Ég er alltaf meira og meira hlynnt því að fara með afmælisbarnið í bíó og út að borða (eða eitthvað annað skemmtilegt) í staðinn fyrir að fylla húsið mitt af gargandi börnum.

Þú átt samúð mína alla vegna ömmu þinnar. Það er svakalega sárt að horfa eftir ástvinum sínum.

Kveðja frá dk

Hulla Dan, 15.3.2008 kl. 18:43

2 identicon

Takk fyrir það Hulla mín. 

Það var líka ákveðið eftir þetta afmælishald að aldrei aftur myndum við bjóða öllum bekknum heim í afmæli.  Held að daman sé bara alveg sátt við það.

Annars verðum við á ykkar slóðum í júní, erum að fara í tvær vikur í sumarhús í Hejlsminde

kveðja

Guðbjörg O.

Guðbjörg Oddsd. (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband