Guðbjörg Oddsdóttir eldri, in memorian

 

Bagga

Ég fékk þær fréttir á afmælisdegi mínum 20. mars að hún amma mín og alnafna Guðbjörg Oddsdóttir væri dáin.  Amma mín var alger hetja, hún var búin að berjast við krabbamein í nokkur ár, en var samt alltaf jafn sæt og fín og vel til höfð.  Ég á margar góðar minningar af henni ömmu minni.  Ég fékk t.d. oft að gista hjá henni í Stórholtinu og var Gústa frænka mín þá oft þar líka.  Ég dáðist að þolinmæði ömmu við okkur frænkur, því oft tókum við upp á ýmsu mis sniðugu.  Við fengum stundum að leika okkur uppi á háalofti og fundum þar alls kyns gamalt dót sem við máttum hafa.  Amma fór tvisvar sinnum með okkur frænkur í Galtalæk um verslunarmannahelgi, á útihátíð.  Ég held að amma hafi skemmt sér jafn vel og við frænkurnar.  Mér er þó alltaf minnistætt þegar við komum heim í tjald af einu ballinu og amma beið eftir okkur og var búin að vera að halda sér vakandi til að halda tjaldinu heitu fyrir okkur með prímus. Þetta lýsir ömmu minni vel, alltaf að hugsa um og gera eitthvað fyrir alla hina.  Amma mín bjó ein í mörg ár eftir að afi minn dó og var alltaf bíllaus, því hún hafði aldrei tekið bílpróf.  Hún var síðan svo heppin að kynnast honum Inga Birni og saman ferðuðust þau mikið, bæði innan lands og utan.  Bestu minningar mínar eru þó tengdar sveitinni hennar ömmu, Heiði á Rangárvöllum.  Það var alltaf svo yndislegt að vera í sveitinni bæði í rólegheitum og með allri stórfjölskyldunni.  Síðast fór ég þangað í ágúst s.l. þegar fólk af heilu ættarmóti mætti þangað í kaffi og samlokur.  Þá vorum við öll að koma frá Keldum, þar sem við heiðruðum minningu látinna ástvina okkar sem þar eru grafnir.  Nú mun hún amma mín blessuð hvíla þeirra á meðal, í sveitinni sem henni þótti svo vænt um.   Ég veit að pabbi minn og afi taka vel á móti ömmu á himnum.  Blessuð sé minning hennar.

Guðbjörg Oddsdóttir, yngri 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband