Alger sæla : )
10.7.2008 | 14:02
Hvað er annað hægt en að njóta lífsins þegar sólin skín og það í marga daga í röð!
Sit hér á svölunum mínum og sleiki sólina meðan yngsti maður sefur miðdegislúrinn. Við vorum svo dugleg í morgun, drifum okkur á hjólinu niður í Salalaug þar sem við hittum mömmu. Ragnar fékk að stinga sér með henni heim meðan ég fór í ræktina. Sótti svo kappann til ömmu þar sem hann var í góðu yfirlæti að leika við afa og ætlaði að neita að fara heim. Eftir nokkrar fortölur fékkst kappinn út og á hjólið. Leiðin heim var talsvert erfið, öll upp í móti og lærin verulega lúin eftir ræktina, en allt hafðist þetta nú fyrir rest. Eftir hádegið er stefnan tekin í sund með mömmu, Sigurrós og Rögnu Björk og örugglega smá sólbað í leiðinni.
Annars er ég alltaf að verða ánægðari með þessa ákvörðun okkar að flytja í Kópavoginn, þó það taki smá tíma að aðlagast nýjum stað. Íbúðin okkar er svo björt og skemmtileg og fínt útsýni yfir Hellisheiði og Heiðmörkina. Hér eru líka göngustígar um allt og aldrei þarf að fara yfir götu, því allsstaðar eru undirgöng, alger snilld. Ég verð afskaplega lítið vör við nágranna mína í húsinu og sé ekki mikið af börnum úti að leika, en vona að það fari að breytast því stóru börnin þurfa að fara að finna sér vini. Annars eru þau í rólegheitunum á Egilsstöðum með pabba sínum og verða örugglega viku í viðbót ef allt gengur vel. Við Ragnar erum því bara í algeru afslappelsi hér á daginn (fyrir utan að vera að klára að koma okkur fyrir) og njótum þess alveg í botn að vera til. Magnús er rosa duglegur í nýju vinnunni sinni og fær því miður ekki meira frí í sumar en þessar tvær vikur sem við vorum úti.
Ég ætlaði að vera voða dugleg að skrifa um Danmerkurferðina en ég bendi áhugasömum bara á síðuna hans Magnúsar, því hann er búinn að vera svo duglegur að skrifa.
Sólarkveðjur til ykkar allra
Guðbjörg
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.