Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Sagan endalausa.....

Hann litli sonur minn er enn á ný orðinn veikur.  Hann hafði ekki náð almennilega úr sér kvefinu um daginn og læknarnir vildu bíða og sjá enn ekki gefa honum neitt.  Í gær þegar hann var sóttur í leikskólann var hann með augun full af grefti svo pabbi hans fór með hann til doksa.  Viti menn, í ljós kom að drengurinn er með bullandi kinnholubólgu og bullandi eyrnabólgu auk þess sem augun í honum er hálf sokkin af einhverri drullu.  Sem sagt, ég er enn á ný heima með veikt barn.  Ég var svo blessunarlega búin að gleyma þessum "veikindakafla" frá því stóru börnin voru lítil.  Þau voru einmitt alltaf lasin á þessum aldri, Oddur þó sýnu verri en Karlotta.  Ég er að reyna að nýta tímann heima vel með því að læðast í tilþrif og önnur verk sem setið hafa á hakanum hjá mér.  það er einhvernvegin erfiðara að halda heimilinu í góðu horfi við hvern fjölskyldumeðlim sem bætist við : )

Annars var ég ótrúlega dugleg í gær og dreif mig í sund.  Ég fór með Oddi á fyrstu sundæfinguna sína í gær og horfði aðeins á hann.  Fór svo heim og sótti Karlottu og skellti mér svo sjálf í sund meðan sundæfingin hennar var.  Ég var búin að gleyma hvað þetta er ótrúlega hressandi og frískandi.  Það var nú eiginlega Karlottu að þakka að ég dreif mig.  Ég var komin á fremsta hlunn með að finna mér góða afsökun til að fara ekki og var að vandræðast með þetta þegar dóttir sagði: Það er nú ekki eins og það sé voða vont veður mamma, þú ert bara að reyna að finna afsökun.

Ég gat náttúrulega ekki verið þekkt fyrir það, svona uppeldislega svo ég skellti mér auðvitað.  Hér með verður þetta nýja líkamsræktin mín : )

kv

Guðbjörg


Konudagur

Minn konudagur var eiginlega í gær.  Ég var heima að dundast við að taka til í herbergjum eldri barnanna þegar bóndinn kom heim úr verslunarleiðangri í Bónus.  Hann birtist með þennan fína blómvönd handa frúnni.  Magnús var líka búinn að kaupa kökusneið handa okkur með kaffinu og Bjarki fékk snúð og Ragnar kleinu.  Oddur og Karlotta voru í Reykjavík.  Bjarka Má langaði svo í bíó að sjá Step up 2, en við vorum fyrir nokkru búin að sjá mynd nr. 1.  Ég ákvað að skella mér með honum í bíó því hann fékk enga krakka með sér og við skemmtum okkur ansi vel. Þessi mynd er bara ansi skemmtileg.  Þegar við komum heim úr bíóinu var Magnús búinn að elda handa okkur dýrindis kjúklingarétt, kveikja á kertum og setja nýju blómin á borðið.  Kvöldinu var svo eytt fyrir framan sjónvarpið við að horfa á Eurovision og mynd með Söndru Bullock.  Í dag sunnudag er ég að undirbúa foreldraviðtöl sem eru á morgun, mánudag.  Eftir hádegi ætlum við út í snjóinn í gönguferð með Ragnar á sleðanum og vonandi nennir "tilvonandi unglingurinn" með.  Litli bróðir hefur nú ansi mikið aðdráttarafl.

Kveðjur til ykkar allra

Guðbjörg


Keppni, keppni, keppni...

Ég er oft svo pirruð yfir íþróttum barna.  Ég er mjög meðmælt því að börn stundi íþróttir, ekki misskilja mig.  En það fer virkilega í taugarnar á mér þegar börn eru strax frá 6 ára aldri flokkuð niður eftir getu í íþróttinni.  Sonur minn var að æfa fótbolta og þar var alltaf skipt í A, B, C og D lið fyrir mót og alltaf verið að keppa einvers staðar.  Hvað viljum við foreldrar fá fram með íþróttaiðkun barnanna okkar?  Börn sem eru alltaf að bera sig saman og læra fljótt að dæma aðra eftir getu þeirra í íþróttinni (ekki skilja þetta svo að sonur minn hafi hætt sökum þess að hann væri ekki góður).  Eða viljum við ala þau upp við að hreyfing sé holl og góð og að maður hafi góðan félagsskap af þeim sem stunda íþróttina með manni og leggja þannig grunninn að því að þau hreyfi sig reglulega, alla ævi.  Viljum við kannski frekar að þau hætti í íþróttinni vegna þess að þau haldi að þau séu svo "léleg" og að "allir" hinir séu miklu betri.

Afskaplega verð ég glöð þegar einhver íþróttafrömuður stofnar einhverskonar félagsskap sem kennir börnum og unglingum ýmislegt um hollar lífsvenjur og hreyfingu og kynnir fyrir þeim mismunandi tegundir hreyfingar.  Hægt væri að fara í sund, dansa, fara á skauta, út að ganga, í ýmsa boltaleiki ofl. þar sem markmiðið væri að hreyfa sig og hafa gaman.

Í starfi mínu sem grunnskólakennari hitti ég og sé svo mörg óhamingjusöm börn.  Það er erfitt að vera barn og unglingur í dag því samkeppnin er mikil á mörgum sviðum.  Börn standa frammi fyrir því að þurfa að passa í ákveðið mót, vera í "réttu" fötunum, vera ekki "nördi" o.s.frv.  Heimur barna er mjög óvæginn.  Getur það verið að við foreldrarnir þurfum eitthvað að taka til í okkar skoðunum og viðhorfum til tilverunnar?  Læra ekki börnin það sem fyrir þeim er haft?  Kannski þurfum við aðeins að slá af kröfunum og meta aðra út frá eigin verðleikum en ekki flottum fötum, holdafari, útliti eða öðrum.  Byrjum á að taka til hjá okkur fullorðna fólkinu, í stað þess að kvarta yfir ungviðinu sem lærir af okkur!

Heitt í hamsi

Guðbjörg


Ótrúlegur dugnaður

Í dag afrekaði ég að fara til Reykjavíkur án þess að fara í eina læknaheimsókn!!!  Ég er nefnilega svo löt að skreppa í bæinn nema ég eigi erindi þangað.  Ég fór með körlunum mínum í bæinn um hádegið og við skruppum í Just 4 kids (af því að hún mætti okkur á leiðinni) og í Ikea.  Við Magnús höfðum nefnilega ákveðið að nú skyldi herbergi yngsta fjölskyldumeðlimsins fá andlitslyftingu í tilefni af tveggja ára afmælinu sem nálgast óðfluga.  Ragnar hefur verið með 2 gamla skápa í herberginu, sem amma hans var að losa sig við og fóru til okkar (ekki þeir smörtustu).  Við keyptum handa honum flotta hvíta hillu með hólfum sem ná alveg í gegn, flottan dótakassa og myndaramma á veggina.  Seinna ætlum við að kaupa flotta bílamottu og rúm (þegar við ákveðum að sleppa honum úr rimlabúrinu). 

Leiðin lá síðan í Laugardalinn að kíkja á sundmótið hjá Karlottu.  Þar hittum við Sigga, Hlín, Kristófer og Malen sem voru líka komin að horfa (Kristó reyndar líka að keppa).  Karlotta ákvað að gista bara hjá pabba sínum í nótt því keppni heldur áfram á morgun, en fyrst fóru krakkarnir frá Selfossi að fá sér Subway og ætluðu kannski í keilu líka.  Við héldum heim um hálf fjögur með viðkomu í sjoppunni við Rauðavatn að kaupa okkur kaffi Sleeping

Þegar heim var komið hófst húsmóðirin auðvita handa við að skrúfa saman hilluna góðu, gat ekki beðið frekar en fyrri daginn.  Byrjaði aðeins að raða dóti í hilluna, en það verður klárað á morgun.  Hefndist reyndar fyrir framkvæmdasemina með leiðinda bakverk og geng því um skökk og skæld.  Enn þetta var þess virði því herbergið verður svo flott Whistling

Kv

Guðbjörg


Föstudagskvöld....

Þá er enn einn föstudagurinn runninn upp, ótrúlega líður tíminn hratt.  Ég skreiddist til vinnu í morgun og síðan á fund kl. 13.  Ragnar Fannberg fór í leikskólann og sá var glaður að hitta loksins önnur börn, veifaði bara og sagði bless við mömmu sína um leið og hann þaut inn að púsla. Um kvöldmatarleytið hélt ég á honum og hann segir eitthvað um "leikskóli" svo ég spyr hvort hann ætli aftur á leikskólann.  Sá stutti segir þá bara "okei, bless" og ætlar niður úr fanginu og fram að klæða sig í úlpu.  Bara sætastur....

Karlotta er að fara að keppa í sundi laugardag og sunnudag í Laugardalslauginni, svo maður þarf sennilega að kíkja eitthvað í bæinn.  Annars er mjög gaman að horfa á svona sundmót, meira að segja þegar maður er plataður í tímatökur eða þ.h.  Ég ætla að kíkja á hana systir mína líka ef hún er orðin hress af sínu kvefi og jafnvel plata hana með mér í IKEA.  Stefni að því að taka hele familien með mér. 

Oddur er alveg agalega spenntur því það var búið að lofa vini hans að gista hjá honum á laugardagskvöldið.  Hann færði sig auðvitað upp á skaftið og var að spá í að fá tvo vini til að gista, en ég gat sannfært hann um að betra væri að fá annan í einu.  Hann er algjör snúlli....  Annars ganga þeir bræður Oddur og Ragnar undir nöfnunum Emil I og Emil II hérna heima hjá sér, kannski að ég fari að nota kofann í garðinum sem smíðakofa?

Á sunnudaginn koma svo "tengdó" frá Akureyri.  Þau eru á leiðinni til Tenerife eins og fleiri og fara út á miðvikudaginn.  Ætla að koma til okkar og gista fram á mánudag og halda þá til Reykjavíkur í útréttingar, áður en þau fara í sólina.  Það verður gaman að sjá þau og mikið held ég að þau verði glöð að hitta Ragnar Fannberg sem hefur þroskast mikið síðan þau sáu hann síðast. 

Best að fara að horfa á "Gettu betur" með Magnúsi og krökkunum og spá í hvað best sé að elda fyrir Akureyringana.  Hafið það gott og gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar mínar.

 Guðbjörg


Aaa Tsjú........

Þetta ætlar að vera meiri veikinda veturinn.  Yngsti fjölskyldumeðlimurinn hefur verið mjög ötull við að næla sér í kvef, kinnholubólgu, eyrnabólgu, þvagfærasýkingu og ég veit ekki hvað, það sem af er vetri.  Núna hefur hann verið heima úr leikskólanum í eina viku, en kemst nú vonandi á morgun eða hinn svo fremi að hann verði hitalaus þá.  Ég er núna komið í bælið honum til samlætis með kvef, hausverk, eyrnaverk og hita,  frábært.........

Ég er sannfærð um að ég verði kjörin starfsmaður ársins (not) þetta árið.  Og flensan er ekki enn komin á heimilið.  Oddur, sem ekkert borðar, virðist ætla að vera hraustastur á heimilinu sem ég skil reyndar ekki.  Hann er auðvitað alveg hættur að taka mark á þusi móður sinnar um að neysla á grænmeti og ávöxtum, fiski og þess háttar "ógeði" (að hans áliti) komi í veg fyrir veikindi og geri mann svo heilbrigðan.

Nóg um það í bili  A tsjú og bless, bless


Hamingjan.....

Ég á góða spakmælabók sem heitir Hamingju spor og finnst gaman að fletta upp í henni annað slagið, til að minna mig á að gleðjast yfir því sem ég hef.  Í dag fletti ég að handahófi upp á þessu:

   "Hvers vegna lifum við lífinu svo sárlega

meðvituð um hamingju annarra en

gleymum að gleðjast yfir okkar eigin?"

Mér fannst mikið til í þessu.  Við erum fljót að gleðjast fyrir annarra hönd ef eitthvað gerist hjá öðrum.  Tökum eftir því hvað annað fólk er hamingjusamt, glatt, ánægt nú eða nýtur mikilla vinsælda.  Það er svo ríkt í okkur mönnunum að finnast að okkar vandamál séu einsdæmi,  það geti ekki verið að aðrir eigi við vandamál að stríða.  Þegar við erum þreytt eða undir álagi finnst okkur kannski að "allir hinir" hljóti að hafa það svo miklu betra! 

Sannleikurinn er sá að allir glíma við vandamál.  Fólki tekst misvel að vinna úr sínum málum og misvel að halda þeim útaf fyrir sig.  Við þurfum að muna eftir öllu því góða sem við höfum og eigum og hugsa um að við gætum haft það svo miklu verra.  Það sagði enginn að lífið ætti að vera eilífur dans á rósum og sennilega væri það bara leiðinlegt ef við þyrftum ekki stundum að reyna aðeins á okkur og taka á honum stóra okkar.

Brettum upp ermar og tökum því sem að höndum ber með æðruleysi.

Brosum framan í heiminn og heimurinn brosir á móti okkurGrin


Nú er úti veður vont....

Þá erum við Ragnar komin á stjá eftir svefnlitla nótt.  Magnús Már var með "rauðvínsklúbb" í gærkvöldi, fyrir samkennara sína (karlkyns) hér heima.  Karlotta og Oddur fóru í bæinn til pabba síns og ég hafði ætlað að gista hjá mömmu með Ragnar Fannberg.  Þegar koma að því að fara til mömmu var staðan sú að Ragnar var með rúml. 39 stiga hita og mikið kvef, mamma var lasin og það var brjálað veður úti!  Nú voru góð ráð dýr.  Magnús hélt það nú að karlarnir kæmu þó það væri "smávegis" vont veður Cool.  Ég brá á það ráð að fara með ferðarúmið hans Ragnar inn í Karlottu herbergi sem er í skúrnum og þar höfðumst við Ragnar við í nótt.  Ég horfði á DVD mynd í fartölvunni og las meðan eldingar dönsuðu um himininn og vindurinn gnauðaði.  Þegar ég ætlaði að fara að sofa fór litli karl að rumska.  Hann fékk annað slagið slæm hóstaköst svo hann stóð alveg á öndinni svo það endaði með að ég tók hann upp í einbreiða rúmið sem ég svaf í.  Framhaldið er það að ég staulaðist framúr í morgun skökk og skæld í bakinu og gat varla snúið hálsinum, hvíldin hafði ekki verið mikil. 

Ég var mest hissa að sjá að það var enn vont veður þegar ég vaknaði í morgun og nú undir hádegi gengur á með þvílíkum éljum að ekki sést í næsta hús.  Veit ekki hvar þetta endar allt saman með þetta blessaða veður.  Mikið verður maður glaður þegar þegar snjóa léttir og fer að vora !!!

Bjarki Már hefur miklar áhyggjur af færðinni því hann á að vera að keppa í RVK seinni partinn og pabbi hans ætlaði að keyra hann og taka Odd og Karlottu með heim til baka.  Ég er ansi hrædd um að ekki verði af þeim áformum.  Ég ætla að minnsta kosti að vera í náttfötum heima hjá mér fram eftir degi og horfa á sjónvarpið, lesa sauma út og leika við Ragnar Fannberg.  Það fær mig enginn út fyrir dyr í þessu veðri Sleeping


Öskudagur

Sit hér heima úr vinnu með Ragnar Fannberg, sem ákvað að verða veikur í dag.  Annars er hann búinn að vera ansi oft veikur í vetur.  Maður er farinn að skammast sín að hringja í vinnuna og tilkynna forföll og flensan ekki komin á heimilið.

Það var mikið að gera á heimilinu í morgun við að klæða börnin í búninga og mála þau áður en þau fóru í skólann.  Karlotta ætlar að vera Amor í dag og var búin að hanna sér búning alveg sjálf.  Fékk reyndar hjálp frá ömmu sinni í gærkveldi við að klára smá saumaskap.  Annars sat hún hér seinnipartinn í gær að dunda sér við að útbúa örvar úr greinum sem hún klippti af trjánum í garðinum (hm, hm) og saumaði hjörtu úr filti á endana.  Hún var líka búin að sníða og sauma poka undir örvarnar.  Ég á nú alveg ótrúlega duglega dóttir InLoveÍ morgun þurfti svo að túbera hárið og spreyja það hvítt.  Ég þurfti nú aðeins að stríða henni og sagði að nú gæti hún séð hvernig hún yrði þegar hún yrði gömul.  Hún hélt reyndar að sennilega yrði hún með fleiri hrukkur.

Oddur Vilberg ætlar að vera rappari í dag.  Hann fór í allt of stórar gallabuxur og gekk á buxnaskálmunum, því það skyldi sko sjást í nærbuxurnar við buxnastrenginn og það all rækilega.  Hann lét sem vind um eyru þjóta ræðu mömmu sinnar um að honum yrði kalt að ganga svona um bæinn og ætlaði ekki einu sinni með úlpu með sér.  Hann tók hana nú með fyrir rest, þegar ég var búin að halda ræðuna um að þeir sem búa á Íslandi þurfi að klæða sig eftir veðri.  Þori að veðja háum upphæðum um að úlpan verði fyrir einhverra hluta sakir, eftir á snaga í skólanum í dag Halo.  Oddur var með klút og derhúfu á höfðinu og í stórri hettupeysu með dollarahálsmen um hálsinn.  Hann afþakkaði pent allan akstur í dag og sagðist sko ætla að labba með strákunum.

Ragnar Fannberg átti að vera kisa og fara á ball í leikskólanum í dag.  Það var kannski heppilegt að hann var lasinn því hann vill ekki sjá þennan kisubúning í dag, ekki að ræða það að fara í hann!!!  Spígsporar bara um í náttfötum og með hor í nefi.  Reyndar er hann búinn að vera alveg á útopnu í morgunn, upp um allt og fiktandi í öllu.  endaði með því að ég lét hann leggja sig rúmlega 10 enda var hann vaknaður kl. 6 í morgun.

Jæja piltur er að vakna og ég ætla að fara að gera mig klára til að keyra Karlottu aðeins um bæinn í sælgætisleit eftir skóla (þegar Magnús kemur á vaktina) því hún er að fara í tónlistarskólann og á sundæfingu seinnipartinn.  stíft prógramm eins og endra nær.

Hafið það gott

Guðbjörg

 


Naflastrengurinn loks að slitna...

Þau stóru tíðindi hafa orðið að mamma og Haukur hafa keypt sér glæsilega íbúð í Reykjavík og munu flytja í hana í byrjun mars.  Ég er mjög glöð fyrir þeirra hönd og veit að þau eiga eftir að hafa það gott í höfuðborginni.  Þetta verða viðbrigði fyrir mig og stóru börnin mín sem svo til alltaf hafa haft ömmu nálægt sér(eins og ég gerði þegar ég var að alast upp). Þegar Karlotta var 3. mán. fluttum við í húsið á Kambsveginum og þá bjó amma uppi og við, litla fjölskyldan niðri.  Þar bjuggum við þar til Oddur var að verða 2 ára, þegar ég flutti með börnin á Selfoss.  Ári síðar flutti mamma á Selfoss.  Aldeilis hefur hún mamma mín bjargað mér oft á tíðum með pössun og einfaldlega góðri nærveru sinni.  Nú er sem sagt formlega komið að því að slíta naflastrenginn, kannski kominn tími til þegar litla barnið (hún ég) er óðum að nálgast fertugt!!

Oddur og Karlotta hafa notið þess að hafa "Ömmudag/ömmudaga" sem felast í því að amma hefur sótt þau í skólann og þau lært og gert ýmislegt huggulegt með ömmu.  Nú verða þau svo heppin að fá annars konar ömmustundir með ömmu í Rvk. og ekki finnst þeim verri tilhugsunin um að fá jafnvel að gista hjá ömmu í nýju íbúðinni.

Það mun ekkert breytast með það að við mamma tölum saman í síma nærri daglega og kannski verður maður nú duglegri að fara í bæinn en ella.  Sigurrós systir mín á nú aldeilis inni að hafa mömmu nálægt sér, svona til tilbreytingar : )  Ragna Björk fær þá líka að kynnast ömmu sinni og nöfnu vel.

 Þetta er allt saman hið besta mál.  Hver veit nema ég flytji bara eitthvað burt líka!!!!

 Kær kveðja

Guðbjörg O.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband