Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Lífið fer í hringi....

 Ég les alltaf stjörnuspána mína á mbl. og í dag þótti mér hún mjög áhugaverð.
Fiskar: Mundu að lífið fer í hringi. Stundum er maður að bæta sig og stundum að samþykkja sig með öllum göllum. Hresstu þig nú við og bættu þig smá.
Er ekki mikið til í þessu?  Stundum finnst manni allt ómögulegt og maður sjálfur meðtalinn en þegar maður er jákvæður og ánægður hefur maður líka jákvætt álit á sjálfum sér.  Það er svo merkilegt þetta með að lífið fari í hringi.  Fólk verður fyrir ýmsum áföllum á lífsleiðinni og finnst öll sund lokuð, en viti menn svo bjóðast alltaf einhver ný tækifæri.  Þetta er auðvitað líka spurning um að hafa opinn huga og taka því sem að höndum ber.  Reyna að vinna sem best úr því. 
 Eitt sinn er ég hafði orðið fyrir áfalli í lífinu, sagði góð kona við mig, að almættið legði ekki meira á mann en það vissi að maður þyldi.  Þessi orð sátu í mér og ég fór að hugsa hlutina öðruvísi.  Auðvitað kæmist ég út úr þessum erfiðleikum. 
Það er ekki alltaf auðvelt að horfa á sjálfan sig með öllum göllum sínum og virkilega viðurkenna þá, horfast í augu við sjálfan sig, nákvæmlega eins og maður er.  Þó er það nauðsynlegt annað slagið því allir geta bætt sig í einhverju. 
Ætla að hætta núna áður fólk heldur að ég sé orðin gaga.......
Kveðja
Guðbjörg

Þó fyrr hefði verið..........

Ég held að það sé kominn tími til að enduvekja þetta blogg formlega.  Ég sem hafði hneykslast þessi ósköp yfir því hvað margir bloggarar væru latir við að skrifa, hélt þetta ekki lengi út sjálf.  Ber héðan í frá mikla virðingu fyrir þeim sem blogga reglulegaBlush

Í síðustu færslu var ég að eignast litla frænku, sem er reyndar að verða 1 árs eftir rúman mánuð og dafnar mjög vel.  Ég skipti sem sagt um vinnu í febrúar í fyrra (á sama tíma og bloggletin gerði vart við sig) og fór að kenna í Sunnulækjarskóla á Selfossi.  Í vetur er ég að kenna aldursblönduðum hópi nemenda úr 4. og 5. bekk ,  Ég hef aldrei á mínum kennsluferli kynnst jafn strembinni skólabyrjun og núna í haust, þar sem tekinn var í notkunn seinni áfangi skólans, sem var ekki tilbúinn þegar nemendur mættu til náms.  Kennarar voru að nota starfsdagana í að bera húsgögn til og frá, þurrka ryk af ýmsum munum og leita að kennslugögnum og bókum. Þar af leiðandi voru námsskrár ekki tilbúnar þegar skólastarf hófst.  Nú er þetta allt komið á góðan rekspöl og útlit fyrir aðeins meiri frítíma m.a. til að blogga Whistling

Ragnar Fannberg byrjaði leikskóla 2. janúar og finnst það algert æði.  Hann kveður foreldrana bara í dyrunum og getur ekki beðið eftir að fara inn að leika sér.  Hann hefur verið duglegur að læra lög í leikskólanum og syngur hástöfum um Krumma sem krunkar úti og fleiri furðuverur.  Ragnar er alltaf hress og glaður og verður án efa í stuði á 2 ára afmælinu sem nálgast óðfluga.  Karlotta er líka farin að skipuleggja afmælið sitt og útbúa boðskort í tölvunni, full snemmt að mati móðurinnar, þar sem afmælið er um miðjan mars! Annars er hún dugleg í skólanum að vanda og æfir sund 3 í viku og píanó 2 í viku, svo hún hefur nóg fyrir stafni.  Oddur Vilberg er að æfa á gítar 1 sinni í viku og mætti nú reyndar alveg hafa meiri áhuga, hann hefur meira gaman af því að göslast úti með vinunum eins og 8 ára dreng sæmir.  Annars stundar hann skólann af kappi og rúllar upp stærðfræðinni.

Núna eru í gangi miklar pælingar hjá fjölskyldunni, því Magnús Már er að hugsa um að snúa sér aftur að vinnu í tölvugeiranum og ýmislegt í gangi með það.  Hver veit hvað verður????  Vonandi skýrist það nú allt fljótlega og í ljós koma afdrif fjölskyldunnar.

 Jæja, nóg um það í bili

Selfosskveðjur

Guðbjörg


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband