Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Allt gengur sinn vana gang....

Ég er greinilega ekki eins dugleg að blogga og ég þóttist ætla að vera Smile  Í vikunni byrjaði ég í nýju vinnunni minni og skemmti mér konunglega, var með upplýsingatæknismiðju fyrir 4 - 6 bekk.  Ég kunni bara vel við að kenna í opnu rými en ekki lokaðri skólastofu, var mest hissa á því hvað það var mikill vinnufriður og lítill kliður.  Reyndar var ég með fleiri nemendur þegar tímanum lauk, en þegar hann byrjaði því nokkrir drengir höfðu laumað sér í hópinn því þeir vildu ómögulega vera þar sem þeir áttu að vera.

Núna er Karlotta að verða búin að vera í gifsinu í 4. vikur og hefur staðið sig eins og sönn hetja.  Krakkarnir í bekknum hafa ekki verið neitt voða dugleg að heimsækja hana svo hún hefur orðið að láta sér nægja félagsskap okkar á heimilinu og ömmu sem kíkir reglulega á hana.  Á morgnana vaknar hún og fer að læra, því hún kemst ekkert í skólann.  Hún var nú samt svo óheppin að fá flensuna og í vikunni fékk hún þvílíkar blóðnasir að ég hef aldrei sé annað eins.  Endaði með að fara með hana upp á spítala því það hætti ekki að blæða.  Þar var einhverri grisju með efni sem á að stöðva blóðnasinar stungið í nefið á henni og loks hætti þetta.  Þeir héldu að slímhúðin væri svona þurr eftir flensuna og þessvegna hefði þetta gerst.

Oddur Vilberg er greinilega hraustastur á heimilinu (7, 9, 13) því hann er sá eini sem hefur verið stálsleginn meðan hinir voru veikir og slappir.  Hann er alltaf að æfa fótbolta og var heldur en ekki montinn í vikunni þegar þjálfarinn bauð honum að koma á markmannsæfingu.  Hann hlakkaði til að geta verið á æfingu með Bjarka (stjúpbróðir sínum), því hann æfir mark og er mjög efnilegur.

Ragnar Fannberg hjartaknúsari heldur áfram að þroskast og dafna og bræða öll hjörtu sem á vegi hans verða.  Hann er alltaf að segja fleiri og fleiri orð (a,m,k skilur heimilisfólkið hann).  Núna er uppáhalds orðið pabbi eða pabba sem hann segir í tíma og ótíma, mamma hans er að verða frekar móðguð við hann.  Hann segir ekki mamma nema hann nauðsynlega vanti eitthvað.  Hann segir líka datt, taka, hoppa, Oddur, dudda, Da (Karlotta) og einhver fleiri.  Hann hendist um allt hús á rassinum og skoðar margt með fingrunum, stundum við litla kátínu annarra, sérstaklega þegar hann ákveður að taka til í dvd myndunum eða geisladiskunum.

Magnús Már er að kenna tölvunámskeið núna í tvær vikur, hjá Fræðsluneti Suðurlands.  Þessari kennslu sinnir hann á kvöldin eftir venjubundinn vinnudag.  Hann er líka búinn að vera svo rosalega duglegur í ræktinni undanfarið, fer í karlatíma tvisvar í viku og svo sjálfur að lyfta þess utan.

Læt þetta duga af fjölskyldunni í bili


Öll él birtir um síðir......

Jæja, þá er fjölskyldan að skríða saman eftir þessa þvílíku flensu.  Ég lá í rúminu frá mánudegi til föstudags með rúmlega 39 stiga hita og var þá komin með eyrnabólgu og kinnholubólgu og var sett á pensilín.  Held ég hafi bara hvorki fyrr eða síðar orðið svona veik.  Karlotta fékk flensuna á föstudag og hefur líka verið með háan hita og mikinn hósta og Ragnar litli er líka búin að vera með þennan óþverra.  Í gærkveldi var Magnús farin að hósta svolítið en hann ætlar að taka þetta á þrjóskunni og segist ekki ætla að verða veikur.  Oddur er alveg stálsleginn ennþá og skellti sér á fótboltamót á Akranesi í gær og skemmti sér mjög vel.  Bjarki var hjá okkur frá miðvikudagskvöldi því mamma hans var að fara (með flensu og hita) í innkaupaferð til London.  Hann sleppur vonandi við að fá þetta líka.

 Annars er það að frétta af mér að ég er að fara að byrja í nýrri vinnu.  Á miðvikudaginn mun ég hefja störf við Sunnulækjarskóla hér á Selfossi.  Ég hef ætlað að prófa að kenna í þessum skóla síðan hann byrjaði en einhvernvegin ekki komið mér í það, en nú verður bót á.  Ég mun kenna tvo morgna til að byrja með og smá auka síðan við mig þar til Magnús fer í fæðingarorlof, þá fer ég í fullt starf.  Held að þetta verði mjög spennandi breyting hjá mér.

 

 

 


Lélegt heilsufar húsmóðurinnar

Ég var mátulega búin að stæra mig af því að hafa varla orðið lasin síðan áður en ég varð ófrísk, þegar ég lagðist í rúmið.  Á sunnudaginn fór ég í afmæli og var þá byrjuð að hósta svolítið.  Í gær vaknaði ég svo með bullandi kvef, illt í hálsinum, með höfuðverk ofl.  Þegar leið á dagin var ég orðin svo slöpp að Magnús kom heim um 2:30 með vinnuna með sér og ég fór inn í rúm að sofa.  Magnús bjargaði mér svo í dag með því að vera heima að hjálpa mér með Ragnar og Karlottu.  Það er að segja ég svaf og hann sá um börnin Smile  Ég er að drekka töfrasafa tengdamömmu í gríð og erg, en hann á að laga kvef o.þ.h. kvilla.  Annars er ég mest hrædd um að Magnús og Ragnar séu að fá þetta líka, en vonandi sleppa þeir!

Ég sá frétt í sjónvarpsfréttum Rúv í gærkvöldi sem hneykslaði mig verulega.  Hjón (á Íslandi) höfðu keypt sér fallegt hús fyrir litlar 100 milljónir til þess eins að rífa það og byggja nýtt, sem samræmist þeirra smekk.  HVAÐ ER AÐ Á ÍSLANDI Í DAG?  Er fólk haldið svona mikilli firringu.  Ég held að þeir ríku í landinu hafi gleymt öllu sem heitir velsæmi, skynsemi og siðsemi og hugsi meira um flottræfilshátt, að toppa næsta mann.  Það var sorglegt að horfa á þegar vinnuvélar méluðu þetta fína hús.  Á meðan býr fólk á íslandi undir fátæktarmörkum.  SKAMM, SKAMM, SKAMM..........


Undarleg lífsreynsla

Á föstudaginn keyrðum við Magnús stóru börnin til helgardvalar í Kópavoginum, sem er nú ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að á heimleiðinni urðum við vitni að ótrúlegum atburði.  Við vorum rétt komin út fyrir borgarmörkin, þegar við tókum eftir því að tveimur bílum á undan okkur ók vörubíll með kerru.  Það hefði svo sem verið í lagi ef kerran hefði ekki verið lítil fólksbílakerra og vörubíllinn stór vörubíll með palli.  Það var talsvert rok þennan dag og rigning.  Kerran sem hékk aftan í vörubílnum sveiflaðist til og frá og fór oft á tíðum aðeins út fyrir hliðar vörubílsins.  Þeir bílar sem óku á eftir þessum gjörningi voru ekki alveg vissir hvort óhætt væri að fara framúr honum, en létu sig margir hverjir hafa það þegar akreinarnar urðu tvær.  Ég harðbannaði Magnúsi að reyna að fara framúr og hélt ræðu um það hversu óábyrgur þessi bílstjóri væri.  Ef kerran myndi brotna af væri ekki að spyrja að leikslokum fyrir það ökutæki sem fengi hana á sig og farþega þess.  Mér var orðið verulega heitt í hamsi.  Þegar við komum inn í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu hringdi ég í lögregluna á Selfossi og sagði frá þessu ökutæki, þeir ætluðu að reyna að senda einhvern af stað.

Svona keyrðum við á eftir vörubílnum langleiðina heim.  Í kömbunum fórum við að heyra skrítið hljóð, líkt og járn sé dregið eftir götu og tókum þá eftir því að eldglæringar stóðu annað slagið undan litlu kerrunni sem sveiflaðist nú mun meira en áður.  Við grínuðumst með það að hún væri sennilega komin á felguna og ekki yrði nú mikið eftir af henni þegar maðurinn kæmi á áfangastað.  Þegar við komum að hringtorginu við Hveragerði gerðist það sem ég hafði verið viss um að myndi gerast.  Kerran losnaði af vörubílnum í beygjunni og ók sem leið lá upp á hringtorgið.  Vinurinn í vörubílnum varð ekki var við neitt og ætlaði að fara að beygja úr hringtorginu í átt að Selfossi þegar við gáfum í og flautuðum á hann.  Hann ók út í kannt og ég baðaði út öllum öngum og Magnús steytti flautuna reiðilega þegar við ókum framhjá.  Ég var komin í svo mikinn ham að ég hefði áreiðanlega hellt mér yfir bílstjórann ef ég hefði komist í tæri við hann.  Í staðin hringdi ég aftur í lögregluna og tilkynnti þeim að kerran hefði losnað af og tilkynnti þeim um númerið á vörubílnum, sem ég náði þegar við ókum framhjá honum.  Við keyrðum heim í Sóltún til mömmu, þar sem Ragnar Fannberg var í góðu yfirlæti og vissum ekki hvernig þessu máli lyktaði.  Í gær fréttum við svo að bílstjórinn hefði fengið sekt og ekki verið sérlega blíður á manninn við lögregluna.  Æ, æ, æ. 

Ég held að þessi bílstjóri hafi verið mjög heppinn að kerran losnaði af á þessum stað og fór upp á hringtorg, losnaði ekki á miðri leið og hentist á önnur ökutæki.  Ég verð svo reið þegar ég hugsa til þess sem hefði geta gerst........ og það allt vegna þess að einhver bílstjóri gleymdi að hugsa málið til enda.   Afhverju í ósköpunum var maðurinn ekki með kerruna á tómum vörubílspallinum?  Við því fæst auðvitað ekkert svar.


Styttist óðum.............

Ég hef verið í fæðingarorlofi frá því 26. mars árið 2006 og nú er janúar 2007 á enda.  Þetta þýðir að ég fer að vinna eftir c.a. 2 mánuði.  Tilhugsunin um það vekur bæði með mér ótta og ánægju.  Ánægju yfir því að komast meira út á meðal fólks og tilheyra ákveðnum hópi aftur.  Á hinn bóginn er ég alveg til í að vera lengur að dúllast með börnin mín og sinna þeim eins og "alvöru" mamma, auk þess sem ég veit ekki alveg hvort ég vil fara aftur að kenna á mínum gamla stað. 

Stundum grípur mig veiki, sem ég held að grípi alla kennara reglulega, hún heitir ,,hvernig datt mér í hug að verða kennari".  En vegna þess að maður hefur svo gaman af því að vinna með börnum og starfið er mjög fjölbreytt (aldrei nein lognmolla) þá kemst maður yfir veikina fljótt, þó hún blossi upp annað slagið.  Ég held að þetta hafi kannski eitthvað með launin að gera og einnig mjög aukið álag á þessa starfsstétt.  Stundum langar mig til að vera í vinnu sem lýkur daglega á ákveðnum tíma og ég þarf ekkert að hugsa um þar til næsta dag.  Í kennslunni er maður alltaf með vinnuna í hausnum, alltaf að upphugsa eitthvað sniðugt til að gera og komandi heim með próf, vinnubækur og ritgerðir til að fara yfir.  Ef maður vill vera virkilega góður kennari, sem flestir vilja auðvitað, fer bara mikill tími í undirbúning og skipulagningu.  Ég hef stundum sagt að það sé lífsstíll en ekki atvinna að vera kennari.  Á mínu heimili eru tveir kennarar og það kæmi mér ekki á óvart ef eitthvað af börnunum ætluðu að verða kennarar!!!

Jæja, ég held að ég hætti þessu rausi, svo ég fæli ekki þessa fáu lesendur mína í burtuGrin 

 


Ég á nóg af peningum..........

Ég hef verið að lesa mjög svo áhugaverða bók, sem ber heitið "Þú átt nóg af peningum.....þú þarft bara að finna þá.  Í þessari bók er hafsjór af fróðleik um fjármál, á máli sem fólk eins og ég skilur.

Höfundurinn, Ingólfur H. Ingólfsson, kennir manni að borga niður skuldir sínar hraðar en gengur og gerist og spara sér þannig milljónir í vexti, til langs tíma litið.  Ég hef strax hafið undirbúning að þessum aðgerðum á mínu heimili.  Í bókinni kemur einnig fram að útgjaldaliðir heimilisins eigi að vera þrír: skuldir - neysla og sparnaður.  Hann varar við því að ætla að spara afganginn af laununum eftir að hafa gert allt hitt, það verður sjaldnast afgangur og þar af leiðandi enginn sparnaður Frown

Nú á að taka sér þessa bók til fyrirmyndar og byrja á að leggja fé í sparnaðinn, ég er búin að reikna þetta allt út.  Ég get stytt lánstímann á lánunum mínum úr 37,4 árum í 17 ár með auðveldum hætti.  Frábært........

Annars hef ég nú alltaf verið dugleg að nurla saman krónum og aurum.  Það er góður skóli að vera einstætt foreldri um tíma, því maður lærir að spara og vera nægjusamur, svo fékk ég auðvitað ágætis fjármála uppeldi á mínu bernskuheimili.

Annars held ég að Magnús sé dauðfegin að ég sé búin með bókina því hann hefur þurft að hlusta á heilu ræðurnar um vexti, vaxtavexti, verðbréf, skattamál og fleira að undanförnu.  Nú segir hann bara já við þessum nýju aðgerðum með von um að ég hætti nú þessu rausiSmile  Nei,nei hann er alveg sammála mér í þessum efnum eins og öðrum.  Hann veit auðvitað hvað hann á ofboðslega klára konu!!!!!

Hafið það gott þar til næst

 


Leikskólamál í Árborg

Nú er mér verulega heitt í hamsi eftir nýjustu fréttir af leikskólamálum hér í Árborg.

Fyrir rúmu ári síðan var allt í ólestri í leikskólamálum hérna, mjög langir biðlistar og allt fullt hjá dagmömmum.  Loks brá meirihlutinn á það ráð að skeyta fjórum útistofum(skúrum) við tvo leikskóla sem fyrir voru.  Það voru steyptir grunnar og söguð göt á veggi leikskólanna svo hægt væri að tengja skúrana við þá.  Með þessu móti var hægt að saxa verulega á biðlistann.  Síðan var hafist handa við að byggja nýjan 6 deilda leikskóla sem tekinn var í notkun í desember s.l. með pomt og prakt, glæsilegur leikskóli.  Þarna í millitíðinni voru kosningar í sveitarfélaginu og fyrir þær lofuðu svo til allir frambjóðendur því að í framtíðinni kæmust 18. mánaða börn inn á leikskóla.

Ég ákvað út frá þessum upplýsingum að taka fæðingarorlof í eitt ár og Magnús tæki svo við í tvo og hálfan mánuð.  þannig náum við að dekka þennan vetur án dagmömmu.  Samkvæmt öllu ætti pilturinn svo að komast í leikskóla í haust. 

En viti menn.  Nýjum meirihluta var steypt af stóli í Árborg og "gamla" stjórnin tók aftur við völdum.  Nú berast þau tíðindi að búið sé að loka einni deild á ný opnuðum leikskólanum og búið að segja upp 5 starfsmönnum og troða börnunum af þessari deild á hinar.  Nú eigi að hækka aldurinn á leikskólann í 24 mánaða.  Frábært!!!!!!!!!

Það skyldi þó ekki vera að nú þyrfti að safna peningum til að geta borgað laun fyrir þrjá bæjarstjóra?  Hvað er þá betra en að skera niður þjónustu við fjölskyldufólk.

 


Fyrsta bloggfærsla

Þá er komið að því að ég, af öllu fólki er farin að blogga.  Ég verð víst að éta ofan í mig fyrri ummæli mín og fordóma um blogg og reyna að fræðast um þetta af eigin raun, með því að blogga sjálf.

Undanfarnir dagar hafa verið verulega annasamir á mínu heimili.  Heimasætan varð fyrir því óláni að detta í hálku þegar hún var að fara á fimleikaæfingu og nú verður hún að gera svo vel að eyða a.m.k. næstu sex vikum í gifsi upp á læri.  Nú fyrst á eftir að reyna á þolinmæði fjölskyldunnar!  Minnsti stubbur er mjög spenntur yfir hækjunum hennar og notar hvert tækifæri til að reyna að komast í þær.  Hann er líka duglegur að reyna að keyra á hana í göngugrindinni þegar hún staulast um á hækjunum.  Þetta vekur auðvitað litla hrifningu hjá Karlottu minni.  Oddur er voða rólegur yfir þessu öllu og var meira að segja svo góður að ganga úr rúmi fyrir hana, því hennar rúm er svo hátt að hún kemst ekki upp í það með gifsið.

Ég hlýt að hafa fundið þetta á mér því ég var nýbúin að taka ákvörðun um að taka hlé á náminu mínu þessa önnina, því mér finnst ég hafa nóg að gera.   Fæðningarorlofinu mínu lýkur í lok mars og þá tekur Magnús við uppeldinu, þetta hefur verið alltof fljótt að líða.  Jæja, ég læt þetta duga sem fyrstu færslu mína í bloggheimum og skrifa vonandi meira á morgun. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband