Vefja.....
2.4.2008 | 18:35
Við lentum í stórkostlegu atviki í síðustu viku. Við vorum á leið heim úr bænum og ákváðum að koma við á bensínstöð á heimleiðinni og kaupa okkur eitthvað í svanginn. Magnús ákvað að fá sér pylsu og við Karlotta ætluðum að fá okkur vefju (tortillaköku). Við fórum bara í lúguna til að versla svo við þyrftum ekki að fara inn. Á mótin okkur tekur c.a. 17 ára gömul afgreiðslustúlka og Magnús pantar strax eina pylsu. Svo kemur að mér að panta ,,ég ætla að fá tvær svona vefjur með kjúkling" segi ég í mesta sakleysi. Afgreiðslustúlkan horfir á mig, eitt spurningamerki í framan ,,vefju" endurtekur hún síðan. Áður en mér gefst tími til að útskýra þetta nánar segir hún ,,ertu að meina svona til að vefja um hendina, svona til stuðnings"? Guð hvað ég þurfti að halda niður í mér hlátrinum. Ég leit á Magnús og sá að hann var alveg að springa við að stilla hláturinn og heyrði bara skríkjur frá Karlottu í aftursætinu. Afgreiðslustúlkan horfði á mig grafalvarleg og beið eftir svari, meinti þetta alveg frá innstu hjartarótum. ,,Nei, þetta er til að borða, svona tortillakökur með áleggi, skornar í tvennt í svona pakka" reyni ég að útskýra. En stendur daman með spurningamerki á andlitinu og á meðan er ég að hugsa hvernig í fjáranum ég eigi að útskýra þetta nánar. Þá segir hún allt í einu ,, já, ertu að meina svona frá Sóma"? Já, já flýti ég mér að segja um leið og hún leggur af stað að sækja eitthvað og við sprungum úr hlátri í bílnum, gátum ekki haldið honum niðri lengur. Afgreiðslustúlkan kemur svo að vörmu spori og ótrúlegt en satt með rétta vöru meðferðis, en þá upphófst lestur hjá henni til að láta mig velja rétta áleggið. ,,Þessi er með Tikkamasla eða eitthvað" og framhaldið á lestrinum var eftir þessu. Ég flýtti mér að velja fyrstu tvær sem hún las á og afþakkaði vinsamlega þegar hún bauðst til að fara og sækja meira, það væru til fleiri tegundir! Við rétt náðum að borga fyrir hlátrinum sem sauð niðri í okkur og þegar við ókum burt frá lúgunni sprungum við úr hlátri. Magnús notar nú hvert tækifæri til að spyrja mig hvort ég vilji ekki ,,svona vefju" í matinn í dag.
Þarf ekki að hafa smá svona common sense til að fá vinnu við afgreiðslustörf?
kveðja til ykkar allra
Guðbjörg
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Hahaha! :) Þessi var góður!
Sigurrós (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 20:23
Ef ég hefði verið að afgreiða hefði ég selt þér tóbak og bréf til að vefja.
Vefja...hver spyr um slíkt í lúgusjoppu ?
Eyjólfur Sturlaugsson, 4.4.2008 kl. 23:37
Ég fór auðvitað að efast um íslenskukunnáttuna eftir þessa uppákomu og fór að reyna að sannfæra sjálfa mig um að tortillakökur með áleggi væru kallaðar Vefjur! Ég fann a.m.k. kafla í matreiðslubókinni hennar Sollu á Grænum kosti, sem heitir einmitt Vefjur. Nú líður mér aðeins betur
kv
Guðbjörg
Guðbjörg Oddsd. (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.