Ótrúlega dugleg í dag
5.7.2008 | 22:11
Dagurinn var tekinn með trompi í dag. Við Magnús Már mættum í ræktina kl. 10 í morgun. Ég fór labbandi með Ragnar Fannberg í Salalaugina í gær og keypti árskort í líkamsrækt (Nautilus) og sund fyrir okkur hjónaleysin. Í morgun fengum við leiðsögn í gegnum tækin og síðan er markmiðið að mæta a.m.k. þrisvar í vikur í tækin og helst í sund þess á milli. Aðstaðan í þessari stöð er ótrúlega flott og frábært að geta farið í sund líka eða heita pottinn og gufu, eftir æfingu.
Þegar við komum heim frá því að sækja Ragnar sem dvaldi í góðu yfirlæti hjá afa og ömmu í Fensölunum, voru hendur látnar standa fram úr ermum. Magnús Már fór að þrífa bílinn að innan og ég kláraði að mála það sem eftir var í stofunni og eldhúsinu. Nú er loks allri málningarvinnu lokið, veiii. Ég var auðvitað svo spennt að fara að setja upp myndir og dúllast aðeins, að ég varð að skella mér í það líka. Setti upp hillur hjá Karlottu og ýmislegt fleira. Ég er nefnilega farin að þrá að sjá fyrir endann á þessu ,,flutningsferli" og losna við restina af kössunum og dótaríinu sem flækist fyrir mér. Ég var ekkert smá montin með mig eftir dugnaðinn, en eftir á að hugsa var þetta kannski ekki það skynsamlegasta. Vona allavega að ég komist út úr rúminu á morgun því ég hef ekki farið í ræktina ansi lengi og verð pottþétt með góðan skammt af harðsperrum. Það er góða við þær er hins vegar að maður finnur svo vel að maður hefur verið að reyna á líkamann, sem er yndislegt.
Á morgun er planið að hafa sól og blíðu og fara út í náttúruna hér í nágrenninu og eyða deginum utan dyra í afslöppun. Eins gott að veðurguðirnir séu með þetta á hreinu.
Kveðja til ykkar allra
Guðbjörg
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ótrúlegur dugnaður í ykkur.
Við erum búin að prúfa þetta einu sinni og það stóð ekki yfir lengi.
Þið fáið sennilega sólina í dag. Eitthvað lítið af henni hérna a.m.k.
Kveðjur úr sveitinni.
Hulla Dan, 6.7.2008 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.