Fjölskylda á faraldsfæti

Heil og sæl

Margt hefur drifið á daga fjölskyldunnar síðasta mánuðinn.  Þann 1. júní s.l. fluttumst við búferlum, frá Selfossi og í Kópavoginn.  Það voru margir yndislegir vinir og ættingjar sem lögðu okkur lið og gerðu það að verkum að flutningurinn gekk upp og fá þeir hér enn og aftur bestu þakkir.  Það hafði verið leigjandi í íbúðinni sem við vorum að kaupa og hún átti að vera farin út á laugardeginum 30. maí.  En þegar við komum með flutningabílinn okkar kl. 13:20 á sunnudeginum kom í ljós að mín var enn að tína út dótið sitt.  Þannig að við þurftum að láta flutningabílinn okkar (með tikkandi mæli) bíða þar til hún gat sent sinn flutningabíl í burtu.  Þegar bílinn loksins fór kom í ljós að þá átti hún eftir að tæma geymsluna sína!  Við brugðum á það ráð að setja bara allt dótið upp í íbúð og tína þá niður í geymsluna seinna.  Auðvitað var íbúðin algerlega óþrifin svo ærið verkefni var fyrir höndum.  Magnús Már fór í nýju vinnuna sína næsta dag og ég brunaði austur á Selfoss að taka foreldraviðtöl og klára frágang í vinnunni.  Tíminn fram að 14. júní fór í það að byrja að koma sér fyrir.  Við ætluðum að mála allt og ég og Haukur byrjuðum á að mála svefnherbergin og sjónvarpsholið svo hægt væri að gera þau herbergi klár.  Það á enn eftir að mála stofuna, hengja upp ýmis ljós, setja segil á baðið og taka upp úr fullt af kössum.  Það er nefnilega þannig að manni verður ekkert rosalega mikið úr verki þegar maður er með 2 ára gamlan verkstjóra sér til aðstoðar!!

Þann 14. júní lagði fjölskyldan svo land undir fót og skellti sér í löngu planaða ferð til Danaveldis.  Oddur minn var orðinn svo spenntur að hann var eiginlega kominn á yfirsnúning í flugstöðinni og var mjög iðinn við að elta litla bróðir sinn um allt og hleypa fjöri í liðið.  Allt fór þó í rólegra horf þegar við fórum um borð í vélina og gekk flugferðin ljómandi vel.  Ragnari fannst þetta allt saman mjög spennandi og spurði á mínútu fresti ,,hvað heitir þetta" og ,,hvað er þetta"?  Við lentum í Billund um hálf tíu að dönskum tíma og þá tók við klukkutíma bið eftir bílaleigubíl, því 10 - 11 íslenskar fjölskyldur þurftu að fá bíl og ein dönsk blómarós að afgreiða : )  Karlotta var dugleg að keyra Ragnar um í kerrunni meðan við biðum og loks gátum við lagt af stað í sumarhúsið sem við áttum pantað.  Þökk sé þeirri yndislegu uppfinningu GPS og mínum yndislegu tengdaforeldrum, sem gáfu Magnúsi það í afmælisgjöf, keyrðum við beint upp að dyrum á húsinu klukkutíma síðar.  Við værum enn að vafra um og leita að húsinu, hefði þess ekki notið við, því leiðin var ekkert augljós svona í náttmyrkrinu.  Húsið sem við pöntuðum var alveg frábært og stóðst fullkomlega allar væntingar okkar (nema hvað rúmin voru mjó og koddarnir vondir : )).

Ég segi ykkur meira frá ferðalaginu í næstu færslu, þið verðið bara að vera þolinmóð elskurnar.  (Þ.e.a.s. þessi eini sem enn nennir að lesa eftir hlé).

Guðbjörg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulla Dan

Ég nenni að lesa... allt  
Nú vona ég að lífið sé að falla í fastar skorður hjá ykkur og að þið séuð búin að komast í labbitúr um hverfið

Knús á ykkur inn í góðan og bjartan dag (sumarið er komið hjá okkur)

Hulla Dan, 4.7.2008 kl. 06:26

2 identicon

Ég les sko líka :)  Kvitt kvitt!

Litla systir (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 20:22

3 identicon

Það er aldeilis gott að sjá að það eru ekki allir búnir að gefast upp á bloggleysinu hjá mér.  Er að læra betur að setja inn myndir svo þetta er allt á uppleið hjá mér, ekki sú tæknilegasta  .

Guðbjörg

Guðbjörg Oddsd. (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband