Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Styttist óðum.............

Ég hef verið í fæðingarorlofi frá því 26. mars árið 2006 og nú er janúar 2007 á enda.  Þetta þýðir að ég fer að vinna eftir c.a. 2 mánuði.  Tilhugsunin um það vekur bæði með mér ótta og ánægju.  Ánægju yfir því að komast meira út á meðal fólks og tilheyra ákveðnum hópi aftur.  Á hinn bóginn er ég alveg til í að vera lengur að dúllast með börnin mín og sinna þeim eins og "alvöru" mamma, auk þess sem ég veit ekki alveg hvort ég vil fara aftur að kenna á mínum gamla stað. 

Stundum grípur mig veiki, sem ég held að grípi alla kennara reglulega, hún heitir ,,hvernig datt mér í hug að verða kennari".  En vegna þess að maður hefur svo gaman af því að vinna með börnum og starfið er mjög fjölbreytt (aldrei nein lognmolla) þá kemst maður yfir veikina fljótt, þó hún blossi upp annað slagið.  Ég held að þetta hafi kannski eitthvað með launin að gera og einnig mjög aukið álag á þessa starfsstétt.  Stundum langar mig til að vera í vinnu sem lýkur daglega á ákveðnum tíma og ég þarf ekkert að hugsa um þar til næsta dag.  Í kennslunni er maður alltaf með vinnuna í hausnum, alltaf að upphugsa eitthvað sniðugt til að gera og komandi heim með próf, vinnubækur og ritgerðir til að fara yfir.  Ef maður vill vera virkilega góður kennari, sem flestir vilja auðvitað, fer bara mikill tími í undirbúning og skipulagningu.  Ég hef stundum sagt að það sé lífsstíll en ekki atvinna að vera kennari.  Á mínu heimili eru tveir kennarar og það kæmi mér ekki á óvart ef eitthvað af börnunum ætluðu að verða kennarar!!!

Jæja, ég held að ég hætti þessu rausi, svo ég fæli ekki þessa fáu lesendur mína í burtuGrin 

 


Ég á nóg af peningum..........

Ég hef verið að lesa mjög svo áhugaverða bók, sem ber heitið "Þú átt nóg af peningum.....þú þarft bara að finna þá.  Í þessari bók er hafsjór af fróðleik um fjármál, á máli sem fólk eins og ég skilur.

Höfundurinn, Ingólfur H. Ingólfsson, kennir manni að borga niður skuldir sínar hraðar en gengur og gerist og spara sér þannig milljónir í vexti, til langs tíma litið.  Ég hef strax hafið undirbúning að þessum aðgerðum á mínu heimili.  Í bókinni kemur einnig fram að útgjaldaliðir heimilisins eigi að vera þrír: skuldir - neysla og sparnaður.  Hann varar við því að ætla að spara afganginn af laununum eftir að hafa gert allt hitt, það verður sjaldnast afgangur og þar af leiðandi enginn sparnaður Frown

Nú á að taka sér þessa bók til fyrirmyndar og byrja á að leggja fé í sparnaðinn, ég er búin að reikna þetta allt út.  Ég get stytt lánstímann á lánunum mínum úr 37,4 árum í 17 ár með auðveldum hætti.  Frábært........

Annars hef ég nú alltaf verið dugleg að nurla saman krónum og aurum.  Það er góður skóli að vera einstætt foreldri um tíma, því maður lærir að spara og vera nægjusamur, svo fékk ég auðvitað ágætis fjármála uppeldi á mínu bernskuheimili.

Annars held ég að Magnús sé dauðfegin að ég sé búin með bókina því hann hefur þurft að hlusta á heilu ræðurnar um vexti, vaxtavexti, verðbréf, skattamál og fleira að undanförnu.  Nú segir hann bara já við þessum nýju aðgerðum með von um að ég hætti nú þessu rausiSmile  Nei,nei hann er alveg sammála mér í þessum efnum eins og öðrum.  Hann veit auðvitað hvað hann á ofboðslega klára konu!!!!!

Hafið það gott þar til næst

 


Leikskólamál í Árborg

Nú er mér verulega heitt í hamsi eftir nýjustu fréttir af leikskólamálum hér í Árborg.

Fyrir rúmu ári síðan var allt í ólestri í leikskólamálum hérna, mjög langir biðlistar og allt fullt hjá dagmömmum.  Loks brá meirihlutinn á það ráð að skeyta fjórum útistofum(skúrum) við tvo leikskóla sem fyrir voru.  Það voru steyptir grunnar og söguð göt á veggi leikskólanna svo hægt væri að tengja skúrana við þá.  Með þessu móti var hægt að saxa verulega á biðlistann.  Síðan var hafist handa við að byggja nýjan 6 deilda leikskóla sem tekinn var í notkun í desember s.l. með pomt og prakt, glæsilegur leikskóli.  Þarna í millitíðinni voru kosningar í sveitarfélaginu og fyrir þær lofuðu svo til allir frambjóðendur því að í framtíðinni kæmust 18. mánaða börn inn á leikskóla.

Ég ákvað út frá þessum upplýsingum að taka fæðingarorlof í eitt ár og Magnús tæki svo við í tvo og hálfan mánuð.  þannig náum við að dekka þennan vetur án dagmömmu.  Samkvæmt öllu ætti pilturinn svo að komast í leikskóla í haust. 

En viti menn.  Nýjum meirihluta var steypt af stóli í Árborg og "gamla" stjórnin tók aftur við völdum.  Nú berast þau tíðindi að búið sé að loka einni deild á ný opnuðum leikskólanum og búið að segja upp 5 starfsmönnum og troða börnunum af þessari deild á hinar.  Nú eigi að hækka aldurinn á leikskólann í 24 mánaða.  Frábært!!!!!!!!!

Það skyldi þó ekki vera að nú þyrfti að safna peningum til að geta borgað laun fyrir þrjá bæjarstjóra?  Hvað er þá betra en að skera niður þjónustu við fjölskyldufólk.

 


Fyrsta bloggfærsla

Þá er komið að því að ég, af öllu fólki er farin að blogga.  Ég verð víst að éta ofan í mig fyrri ummæli mín og fordóma um blogg og reyna að fræðast um þetta af eigin raun, með því að blogga sjálf.

Undanfarnir dagar hafa verið verulega annasamir á mínu heimili.  Heimasætan varð fyrir því óláni að detta í hálku þegar hún var að fara á fimleikaæfingu og nú verður hún að gera svo vel að eyða a.m.k. næstu sex vikum í gifsi upp á læri.  Nú fyrst á eftir að reyna á þolinmæði fjölskyldunnar!  Minnsti stubbur er mjög spenntur yfir hækjunum hennar og notar hvert tækifæri til að reyna að komast í þær.  Hann er líka duglegur að reyna að keyra á hana í göngugrindinni þegar hún staulast um á hækjunum.  Þetta vekur auðvitað litla hrifningu hjá Karlottu minni.  Oddur er voða rólegur yfir þessu öllu og var meira að segja svo góður að ganga úr rúmi fyrir hana, því hennar rúm er svo hátt að hún kemst ekki upp í það með gifsið.

Ég hlýt að hafa fundið þetta á mér því ég var nýbúin að taka ákvörðun um að taka hlé á náminu mínu þessa önnina, því mér finnst ég hafa nóg að gera.   Fæðningarorlofinu mínu lýkur í lok mars og þá tekur Magnús við uppeldinu, þetta hefur verið alltof fljótt að líða.  Jæja, ég læt þetta duga sem fyrstu færslu mína í bloggheimum og skrifa vonandi meira á morgun. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband