Keppni, keppni, keppni...

Ég er oft svo pirruð yfir íþróttum barna.  Ég er mjög meðmælt því að börn stundi íþróttir, ekki misskilja mig.  En það fer virkilega í taugarnar á mér þegar börn eru strax frá 6 ára aldri flokkuð niður eftir getu í íþróttinni.  Sonur minn var að æfa fótbolta og þar var alltaf skipt í A, B, C og D lið fyrir mót og alltaf verið að keppa einvers staðar.  Hvað viljum við foreldrar fá fram með íþróttaiðkun barnanna okkar?  Börn sem eru alltaf að bera sig saman og læra fljótt að dæma aðra eftir getu þeirra í íþróttinni (ekki skilja þetta svo að sonur minn hafi hætt sökum þess að hann væri ekki góður).  Eða viljum við ala þau upp við að hreyfing sé holl og góð og að maður hafi góðan félagsskap af þeim sem stunda íþróttina með manni og leggja þannig grunninn að því að þau hreyfi sig reglulega, alla ævi.  Viljum við kannski frekar að þau hætti í íþróttinni vegna þess að þau haldi að þau séu svo "léleg" og að "allir" hinir séu miklu betri.

Afskaplega verð ég glöð þegar einhver íþróttafrömuður stofnar einhverskonar félagsskap sem kennir börnum og unglingum ýmislegt um hollar lífsvenjur og hreyfingu og kynnir fyrir þeim mismunandi tegundir hreyfingar.  Hægt væri að fara í sund, dansa, fara á skauta, út að ganga, í ýmsa boltaleiki ofl. þar sem markmiðið væri að hreyfa sig og hafa gaman.

Í starfi mínu sem grunnskólakennari hitti ég og sé svo mörg óhamingjusöm börn.  Það er erfitt að vera barn og unglingur í dag því samkeppnin er mikil á mörgum sviðum.  Börn standa frammi fyrir því að þurfa að passa í ákveðið mót, vera í "réttu" fötunum, vera ekki "nördi" o.s.frv.  Heimur barna er mjög óvæginn.  Getur það verið að við foreldrarnir þurfum eitthvað að taka til í okkar skoðunum og viðhorfum til tilverunnar?  Læra ekki börnin það sem fyrir þeim er haft?  Kannski þurfum við aðeins að slá af kröfunum og meta aðra út frá eigin verðleikum en ekki flottum fötum, holdafari, útliti eða öðrum.  Byrjum á að taka til hjá okkur fullorðna fólkinu, í stað þess að kvarta yfir ungviðinu sem lærir af okkur!

Heitt í hamsi

Guðbjörg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er svo algjörlega sammála þér! Er sjálf ósköp lítil keppnismanneskja og á erfitt með að sjá tilganginn í að þetta þurfi allt að snúast um hver "sé bestur".

Sigurrós (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband