Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fallegt haustveður

Það er gaman að sjá að veðurguðirnir hafa ákveðið að aðstoða okkur við að horfa björt fram á veginn.  Í gær var dimmt, rok og rigning en í dag er bara hið fallegasta haustveður.  Þegar ég vaknaði í morgun sá ég að bankinn sem hefur að geyma alla mína fjármuni er kominn á hausinn, en ég alveg merkilega róleg yfir þessu.  Held að það bæti ástandið ekkert ef landsmenn flykkjast í bankann til að reyna að taka út allar sínar eigur, þá fyrst fer að skorta fjármagn.  Ég veit að það er ósköp lítið sem ég get gert til að breyta ástandinu og því best að fara bara að ráðum Pollíönu og treysta því að allt fari á besta veg.  Það er búið að segja að það sé búið að tryggja sparifé landsmanna.  Mér finnst ráðamenn allir hafa staðið sig vel við mjög erfiðar aðstæður, auðvitað á eftir að fara betur í saumana á þessu máli síðar og vonandi læra af reynslunni!!!!!!

Ég verð nú að segja að ég vorkenni ekki þeim starfsmönnum Landsbankans sem ,,neyðast" til að hætta á ofurlaununum sínum og fá ,,bara" laun eins og venjulegt fólk.  Spurning hvort aðrir ofurlaunamenn ættu ekki að sýna gott fordæmi og lækka við sig launin í þessari tíð?  það er ýmislegt í lífinu dýrmætara en peningar Smile

 Stórt knús og breitt bros til ykkar allra kæru vinir

Guðbjörg O.


Svartur mánudagur.......

Ekki hefur nú verið gleðiefni að fylgjast með fjölmiðlum í dag.  Ekki veit ég hvaða þýðingu allt þetta hefur fyrir almenning í landinu, hef grun um að ekki sé allt látið flakka sem menn vita og sjá fyrir.  Við eigum t.a.m. eftir að fá greitt og greiða síðust greiðslu í nýrri íbúð og ekki er atvinna bankamanna tryggð.  Þungur dagur, en á morgun hef ég trú á því að menn vakni, tilbúnir til að gera það sem gera þarf og fá storminn í fangið.  Er það ekki Íslendinga siður að standa af sér storma.  Maður verður bara fyrst að fá einn dag til að vera svartsýnn.......

 kveðja

Guðbjörg O.


Íslenska óperan

Ég fór í Óperuna á sunnudagskvöldið síðasta að sjá Cavalleria rusticana og Pagliacci í boði tengdaforeldra minna.  Þetta eru tvær stuttar, en bráðskemmtilegar óperur.  Ég hef aldrei áður komið í þetta óperuhús (gamla bíó) og ég verð að segja að ég dáist að því hvernig þeir fara yfirleitt að því að setja upp óperur á þessu litla sviði.  Mikið held ég að allir verði glaðir þegar almennilegt óperuhús rís.  Að ég tali nú ekki um sætin, við sátum þó uppi á svölum þar sem eru betri stólar en niðri!  Þetta var mikil upplifun og ég var mjög hrifin.  Þarna voru margir stórsöngvarar á borð við Sólrúnu Bragadóttur, Jóhann Friðgeir, Tómas Tómasson ofl.  En ég verð að segja að Kristján Jóhannsson bar þó höfuð og herðar yfir aðra í sýningunni, auðheyrt að hann er af öðru ,,caliberi" að öllum öðrum ólöstuðum.

kv

Guðbjörg Oddsd.


Gleymdi að klukka áfram....

Ég klukka Kötlu, Eyjólf Sturlaugsson, Önnu siggu og Helgu Einarsd.

Klukk - hvað ?

Ég get víst ekki skorast undan þessu klukki, bæði mamma og Sigurrós búnar að klukka migSmile

4 störf sem ég hef unnið:

Hér er sko af mörgu að taka, hef greinilega komið víða við en gert t.d. þetta:

Verkstjóri í unglingavinnu í Fellabæ í tvö sumur.  Vann í fataversluninni Skógar í tvö sumur, nokkur jólafrí og í hlutastarfi einn vetur.  Vann á endurskoðunarskrifstofu eina önn sem sendill/ritari og hef að lokum unnið sem grunnskólakennari í bráðum þrettán ár.

4 bíómyndir

Ég er alveg glötuð í að muna eftir því hvaða bíómyndir mér hafa fundist góðar, eins með hvaða bækur mér finnst góðar.  Hugsa oft með mér, þetta er besta mynd/bók sem ég hef séð/lesið og er búin að gleyma því eftir viku. En..........

Ég hef áreiðanlega horft 100 sinnum á pretty woman (mjög oft með mömmu eða systu ; ).  Mér fannst líka Mamma mía alveg frábær, ótrúleg stemmning.  Allar Harry Potter myndirnar eru góðar.  Svo verð ég að nefna eina mynd, ekki vegna þess að hún hafi endilega verið svo góð.  við systur gleymum henni líklega aldrei What lies beneath, minnir mig að hún heiti.  Hef aldrei verið eins hrædd og aldrei séð svona mynd eftir þetta.

4 staðir sem ég hef búið á

Egilsstaðir.  Selfoss. Surrey í Englandi og Reykjavík/Kópavogur.  þetta eru reyndar 5.

4 sjónvarpsþættir

Allir sem þekkja mig vel ættu að vita að ég er forfallin ER aðdáandi.  Ég hef líka fylgst með One tree hill (eins og unglingarnir).  Mér finnst alltaf gaman að horfa á CSI og finnst vera veisla ef ég get séð þætti um Taggart.  Annars elska ég flest alla breska þætti, fíla breskan húmor og elska að hlusta á ensku.

4 staðir sem ég hef komið til í fríum

Eitt sinn fór ég í reisu til Singapore og Taílands, hef líka komið ansi oft til Bretlands og á eftir að fara miklu oftar þangað (love it).  Í sumar fórum við familían til Danmerkur og ég hef líka komið til Spánar og á fleiri staði.

4 matarkyns

Mér finnst fiskisúpa eddu frænku algert æði, gæti borðað hana í öll mál.  Ég elska hamborgarhrygg eldaðan a la mamma style.   Humar er algert lostæti og neita mjög sjaldan góðum eftirrétti.

4 bækur

Allar Harry Potter bækurnar (er forfallinn potter aðdáandi).  Mér finnst mjög gaman að lesa bækur eftir Dan Brown og hef líklega lesið allar bækur Patriciu Cornwell um réttarmeinafræðinginn Kay Scarpetta.  einnig er ég nýlega búin að lesa The Machiavelli Covenant eftir Allan Folsom.

4 óskastaðir núna

Gæti vel hugsað mér að skreppa til Bretlands eða jafnvel Parísar í stutta ferð.  Væri líka til í að fara með bóndanum í helgarferð út á land á hótel eða í sumarbústað (barnlaus).  Gæti líka hugsað mér að prófa að fara til Köben í lok nóvember, svona aðventuferð.  Helst þyrfti ég að geta komist til þessara staða með hugarorku þar sem flugvélar eru ekki alveg vinkonur mínar.

 Vona að þið hafið fengið einhverja innsýn í mitt líf, annars verið óhrædd við að biðja um frekari upplýsingar Wink

Góða helgi öll sömul

kveðja

Guðbjörg


Þetta gengur ekki lengur

Tvö blogg í mánuði.......þetta gengur auðvitað alls ekki.  Stefnan er að fara að sinna þessu betur.

Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni í Kópavoginum og lífið farið að ganga sinn vana gang.  Ragnar Fannberg fékk loksins pláss á leikskóla og finnst ótrúlega gaman á leikskólanum sínum Kór.  Hann er líka svo duglegur að æfa sig að vera bleyjulaus og pissa í kopp eða klósett eins og ,,stóru krakkarnir".  Hann er líka að æfa sig í að sofa í ,,stórustráka rúmi" við ómælda gleði foreldranna W00t því hann kemur a.m.k. 10 ferðir fram úr því áður en hann lognast útaf.  Karlotta var að byrja í söngskóla Maríu í síðustu viku og líkar mjög vel og hún ætlar líka að halda áfram að læra á píanóið.  oddur minn Vilberg er nokkuð kátur þessa dagana og hefur verið mjög duglegur við að kynnast nýjum strákum, bæði í sínum bekk og hinum 4. bekknum í skólanum.  Það er a.m.k. alltaf einn eða tveir drengir með honum þegar hann kemur heim úr skólanum, þó hann fari líka stundum heim með öðrum.  Hann fór t.d. í náttfatapartý í dag eftir skóla, þá bauð einn strákur öllum hinum strákunum  úr árganginum heim til sín, allir í náttfötum auðvitaðCool

Magnús er ánægður í nýju vinnunni og hefur haft nóg að gera nú í haust.  Hann tók upp á því að fara með strætó í vinnuna svo frúin geti haft bílinn til að skutlast með börnin til og frá.  þetta er líka svo ótrúlega umhverfisvænt.

Ég er líka mjög ánægð í vinunni minni og alltaf meira en nóg að gera.  Hef, eins og kennara er síður, verið að dröslast með heimavinnu heim til að sinna á kvöldin svo dagarnir eru stundum langir, en það stendur nú allt til bóta.  Er með námskynningu á morgun fyrir foreldra 6 ára barna frá 17:30 - 19:30, boðið upp á súpu og brauð og fyrirlestur um heilsu og hollustu, ásamt fleiru.  Enda er ég að kenna í heilsuskóla þar sem allir bekkir fara í íþróttir, sund eða hreyfingu á hverjum degi - frábært mál.  Enda eflir það námsárangurinn að hreyfa sig reglulega og eykur blóðflæði til heilans.

Kveðja til ykkar allra

p.s.

Silla og Loftur Þór áttu bæði afmæli á mánudaginn var - til hamingju með það.


Brunnurinn

Ég hélt ég myndi bilast úr hlátri þegar hann sonur minn var að lýsa fyrir mér sírn sem hann var í á sunnudaginn.

Oddur: mamma mannstu í skírninni sem ég var í á sunnudaginn, hvað heitir aftur strákurinn?

mamma: hvaða strákur, ertu að meina barnið sem var skírt, hann heitir Jón Ingi.

Oddur: já en mamma, sko þegar þau stóðu með hann hjá brunninum og það átti að fara að setja vatnið......

Hér bilaðist ég úr hlátri, ég hélt ég hefði nú farið nógu oft með son minn í kirkju til að hann kallaði ekki skírnarfontinn brunn.  Svo áttaði hann oddur minn sig á því að þetta héti kannski ekki brunnur og við gátum hlegið okkur máttlaus að þessu saman. 

Börn eru yndisleg.

Guðbjörg 


Er ég orðin svona gömul?

Ég ákvað að skella loks inn einni færslu svona eftir fyrstu vikuna með krúttunum mínum mínum í 1. bekk.

Ég lenti í mjög skemmtilegu atviki á s.l. miðvikudag þegar ég skellti mér í Krónuna að versla.  Ég hitti konu sem ég þekkti strax, en hún var móðir stelpu í fyrsta bekknum ég kenndi eftir að ég útskrifaðist úr kennó.  Hún þekkti mig lika strax og við fórum að spjalla.  Af því að maður er svo sjálflægur finnst manni alltaf að umheimurinn standi í stað meðan tíminn líður hjá manni sjálfum.  Þess vegna fékk ég svona nett sjokk þegar ég komst að því að þessi stelpa er núna 19 ára gömul og ég var að kenna henni þegar hún var 6 og 7 ára!  Móðirin huggaði mig með því að segja að ég liti nú alltaf svo unglega út (vorkenndi mér sennilega við þessa uppgötvun ; )).  Annars þótti mér svo vænt um að mamman sagði mér að af þeim kennurum sem dóttirin hefði haft, væri ég og önnur sem kenndi henni líka þegar sú var nýútskrifuð, bestu kennararnir sem hún hefði haft.  Það færi sko ekki allt eftir reynslunni heldur líka persónuleikanum - ég get ekki lýst því hvað mér þótti vænt um þessi orð.  Maður hefur kennt mörgum og oft velt fyrir sér hvort manni hafi tekist að marka einhver spor í lífi viðkomandi.  Ég bað hana að skila kveðju til dömunnar ef hún myndi eftir mér og mamman sagði að hún myndi sko vel eftir mér og ætlaði að skila því.

Annars er ég búin að kenna 1. bekknum mínum í eina viku og búið að vera mikið gaman.  Auðvitað tekur það á þolinmæðina því þessar elskur eru auðvitað ekki alveg búin að læra að vera í skóla og tala öll í einu og vilja þjónustu strax.  Það eru á börn í bekknum mínum og enginn stuðningsfulltrúi mér til aðstoðar.  Það leggst mjög vel í mig að vinna í þessum skóla, líst mjög vel á samstarfsfólkið og stjórnendur.  Karlotta og Oddur eru líka ánægð og líst bara vel á, eru svona að þreifa fyrir sér í vinamálunum.  Annars vorum við með bekkinn hans Odds hér í afmæli á fimmtudaginn.  Ég bakaði nokkrar pizzur og gerði súkkulaðiköku og svo var farið í ýmsa leiki.  Það var mikið fjör í mannskapnum og ég fann verulega til með fólkinu á neðri hæðinni.  Ég var alveg búin á því eftir þessa viku, enda var annað afmæli hér fyrir familíuna s.l. laugardag, svo ég lak niður í sófann í gærkveldi og sleppti meira að segja fyrsta partýinu á nýjum vinnustað.

Kveðja úr Kópavoginum

Guðbjörg


Fyrsta vinnuvikan

Það er lítill tími í blogg þessa dagana svo ég verð að blogga almennilega síðar.  Ég er á fullu að undirbúa komu 6 ára barna í Hörðuvallaskóla, en ég mun vera með umsjón í 1. bekk í vetur.  Oddur og Karlotta eru að fara í viðtal hjá sínum kennurum á morgun og svo hefst skólinn á mánudag.  Á laugardag er svo stefnt að því að halda afmælisveislu fyrir Odd Vilberg.  

Kveðja

Guðbjörg


Borgarstjórnarfarsinn

Ég veit bara ekki hvar þetta endar með borgarstjórnina í Reykjavík.  Enn á ný hefur samstarfi verið slitið í stjórn Reykjavíkurborgar og enn einn borgarstjórinn á leiðinni á biðlaun.  það hlýtur að vega þungt í rekstri borgarinnar að punga út öllum þessum aukamillum vegna biðlauna, sérstaklega þegar um er að ræða 1,1 miljón á mánuði sem eru laun borgarstjóra.  Kannski má segja að þetta sér betri kostur, af tvennu illu, fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  En óneitanlega gerir þetta það að verkum að almenningur hlýtur að fara að missa allt traust á það fólk sem fer með stjórn borgarinnar, sama úr hvaða flokki það er.  Er ekki löngu orðið tímabært að maður geti bara kosið einstaklinga en ekki þessa flokka, bæði í bæjarmálapólitíkinni og í sveitastjórnarkosningum.  Ég er að öllu jöfnu ekki mjög pólitísk og hvað þá að ég sé að festa eitthvað á prent í þeim efnum, en þetta er alveg ótrúlegur farsi.

Kveðja til ykkar allra

Guðbjörg (að íhuga framboð : )


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband